Bótakröfur og úrræði

Tímafrestir til að tilkynna um tjón og setja fram bótakröfu - Reglur um brottfall bótakröfu

Skylda til að tilkynna um vátryggingaratburð án ástæðulauss dráttar

Hafi vátryggingaratburður orðið skal vátryggður, þegar um er að ræða skaðatryggingar, skýra félaginu frá því án ástæðulauss dráttar samkvæmt 3. mgr. 28. gr. VSL. Að því er varðar persónutryggingar hvílir samsvarandi skylda á þeim sem telur sig eiga kröfu á félagið (kröfuhafa) samkvæmt 1. mgr. 92. gr. VSL. Ef tilkynningaskyldan er vanrækt af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi getur komið til skerðingar á ábyrgð félagsins.

Eins árs frestur til að setja fram bótakröfu - Áhrif tómlætis vátryggðs/kröfuhafa

Sú skylda hvílir jafnframt á vátryggðum/kröfuhafa að setja fram bótakröfu. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. VSL glatar vátryggður rétti til bóta samkvæmt skaðatryggingu ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem krafan er reist á. Sami frestur gildir samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laganna um þann sem á rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar. Tilkynning til félagsins um bótakröfu er talin nægja til þess að rjúfa eins árs frestinn, þótt krafan sé ekki endanlega rökstudd.
Upphaf tilkynningarfrestsins miðast við það tímamark þegar viðkomandi veit um atvik sem bótakrafa er reist á. Upphaf frestsins er ekki bundið við það að vitneskja liggi fyrir um orsakir tjóns eða fjárhagslegar afleiðingar þess.
Í greinargerð með frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga kemur fram, að þótt reglan um eins árs frest til að setja fram bótakröfu og um réttaráhrif tómlætis kunni að virðast ströng, sé þessi regla mun rýmri en heimild stóð til samkvæmt ákvæðum eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Tekið er fram að vátryggingafélög hafi mikla hagsmuni af því að kröfur komi fram sem fyrst og það hafi samfélagslega þýðingu að ljúka slíkum málum án óþarfa dráttar. Ávæði VSL um eins árs frest til þess að setja fram bótakröfu geri kröfur til vátryggðs/kröfuhafa af því að það sé á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir því að atvikin sem hann hefur fengið upplýsingar um veiti honum rétt til vátryggingabóta. Jafnframt er tekið fram að óhjákvæmilegt sé að skipa reglum með þessum hætti, enda verði að ætlast til þess að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa.

Þess má geta að VSL byggja á norskri fyrirmynd. Í norskum vátryggingarsamningalögum er sambærileg regla, þess efnis að vátryggður/kröfuhafi glati bótarétti ef hann setur ekki fram bótakröfu á hendur félaginu innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem krafan er reist á.

Í VSL kemur fram að lögin taki til allra vátryggingarsamninga, bæði þeirra sem í gildi voru við gildistöku laganna hinn 1. janúar 2006 og samninga sem gerðir verða, endurnýjaðir eða framlengdir eftir gildistöku laganna. Samkvæmt þessu taka reglur núgildandi laga meðal annars til samninga um líf- og sjúkdómatryggingar, sem gerðir voru í tíð eldri vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954.

Eins árs frestur til málshöfðunar eða til að vísa máli til úrskurðarnefndar - Áhrif tómlætis

Í 2. mgr. 51. gr. og 2. mgr. 124. gr. VSL er kveðið á um frest til málshöfðunar eða til að vísa máli til úrskurðarnefndar þegar félagið hafnar bótakröfu. Þar segir að hafni félag bótakröfu í heild eða að hluta glati vátryggður/kröfuhafi rétti til bóta, hafi hann ekki höfðað mál eða krafist meðferðar máls fyrir úrskurðarnefnd innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu frá félaginu um að kröfu væri hafnað. Í slíkri tilkynningu er félaginu skylt að geta um framangreindan fest, með hvaða hætti er unnt að rjúfa hann og afleiðingar þess að ekki er aðhæfst fyrir lok frestsins. Ákvæði 51. gr. VSL gildir um skaðatryggingar og 124. gr. gildir um slysa-, sjúkra- og heilsutryggingar með og án uppsagnarréttar.
Til samanburðar má geta þess að í norskum vátryggingarsamningalögum, sem voru fyrirmynd VSL, er samsvarandi tímafrestur til málshöfðunar eða til að vísa máli til úrskurðarnefndar sex mánuðir frá tilkynningu félags um að höfnun kröfu.

Fyrning bótakröfu

Auk þess sem bótakröfur geta fallið niður vegna tómlætis vátryggðs eða kröfuhafa geta kröfur fallið niður vegna fyrningar. Fyrning bótakröfu er fólgin í því að réttur sem ekki hefur verið beitt með ákveðnum hætti í tiltekinn tíma fellur niður. Fyrningarfrestur rofnar ef mál er höfðað gegn félagi til heimtu bótakröfu. Reglur um fyrningu bótakrafna eru í 52. gr. VSL að því er varðar skaðatryggingar og í 125. gr. að því er varðar persónutryggingar.

Í skaðatryggingum fyrnist krafa um bætur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Þó fyrnist krafa í síðasta lagi á tíu árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggingaratburður varð. Í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð félagsins samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrningu skaðabótaábyrgðar.

Í persónutryggingum fyrnist krafa um vátryggingarfjárhæð samkvæmt höfuðstólstryggingum á tíu árum og aðrar kröfur á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs þegar sá sem kröfuna á fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem krafa hans er reist á. Krafa samkvæmt höfuðstólstryggingunum fyrnist þó í síðasta lagi á 20 árum en aðrar kröfur á 10 árum eftir lok þess almanaksárs sem vátryggingaratburður varð.

Krafa samkvæmt lífeyristryggingu fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta lífeyrisgreiðsla var innt af hendi. Hafi ekki verið inntar af hendi neinar greiðslur hefst fresturinn á þeim degi sem rétthafinn gat krafist fyrstu greiðslu. Krafa um gjaldfallnar greiðslur fyrnist auk þess að liðnum fjórum árum frá gjalddaga.

Í einstökum lögum geta verið sérreglur um fyrningarfresti tiltekinna bótakrafna. Rétt er að vekja athygli á 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem varðar fyrningu bótakrafna samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga. Þar kemur fram að allar bótakröfur, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

Skyldur félagsins til að vekja athygli á tímafrestum

Samkvæmt VSL hvílir upplýsingaskylda á félaginu við töku og endurnýjun vátrygginga og í ákveðnum tilvikum á vátryggingartímanum. Þegar vátryggingarsamningur hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar eiga að gilda um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans.
Reglur um vátryggingarskírteini í skaðatryggingum eru í 10. gr. VSL og í 70. gr. laganna að því er varðar persónutryggingar. Í vátryggingarskírteininu skal koma fram árétting til vátryggingartaka um að hann kynni sér skilmála vátryggingarinnar, þ. á m. varðandi fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð. Jafnframt skal sérstaklega tekið fram í skírteininu hvaða frestur er til að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 124. gr. VSL.
Auk þess sem upplýsingar um tímafresti koma fram í vátryggingarskírteini vekja félög gjarnan athygli á tímafrestum til að tilkynna tjón, setja fram bótakröfu og til lögfræðilegra aðgerða í skilmálum sínum. Loks skal þess getið að í tengslum við gildistöku VSL hinn 1. janúar 2006 upplýstu íslensk vátryggingafélög þá viðskiptavini sína, sem höfðu keypt vátryggingar fyrir gildistöku laganna, um hina nýju löggjöf og breytingu á vátryggingarskilmálum.

Hvaða úrræði á vátryggður ef vátryggingarfélag neitar að greiða bætur eða greiðir lægri bætur en vátryggður telur sig eiga rétt á?

Vátryggingaréttur er flókið réttarsvið að mörgu leyti og því ekki óeðlilegt að ýmis ágreiningsefni komi upp milli vátryggingafélags og vátryggðs við bótauppgjör. Telji vátryggður á sig hallað á hann um nokkra kosti að velja.
Samkvæmt VSL 30/2004 gefst viðskiptavinum félags og þeim sem verða fyrir tjóni kostur á að skjóta ágreiningi um afstöðu félags til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum eða til dómstóla innan árs frá tilkynningu félagsins um að það hafni kröfu um bætur í heild eða að hluta. Sérstök athygli er vakin á því að sá sem á rétt til bóta glatar þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. VSL innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags. Nefndin úrskurðar jafnframt um ágreining sem varðar ákvæði VSL. Úrskurðarnefnd skipa þrír lögfræðingar, sem tilnefndir eru af viðskiptaráðuneytinu, Neytendasamtökunum og SFF. Fylla þarf út sérstakt eyðublað vegna málskots til úrskurðarnefndarinnar, sem fá má hjá vátryggingafélögunum, Fjármálaeftirlitinu eða Neytendasamtökunum. Hægt er að sækja málskotseyðublað á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins www.fme.is. Þar má einnig finna nánari upplýsingar um úrskurðarnefnd, starfshætti nefndarinnar og hvernig mál verða borin undir hana. Eyðublaðinu og fylgigögnum ber að skila til Fjármálaeftirlitsins ásamt málskotsgjaldi, nú að fjárhæð kr. 6.000. Gjaldið er endurgreitt verði niðurstaðan málskotsaðila í hag að öllu leyti eða hluta.
Úrskurðir úrskurðarnefndar eru bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema félagið tilkynni málskotsaðilanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur, að það muni ekki hlíta honum og færi rök fyrir afstöðu sinni. Ef vátryggður eða kröfuhafi unir ekki niðurstöðu úrskurðarnefndar geta þeir vísað málinu til almennra dómstóla eftir hefðbundnum leiðum.

Tjónanefnd vátryggingafélaga

Ef mál varðar ágreining um sök eða sakarskiptingu í lögboðinni ökutækjatryggingu er einnig unnt að skjóta máli til tjónanefndar vátryggingafélaga. Málskot til tjónanefndar er endurgjaldslaust.
Tjónanefndin starfar á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Vátryggingafélögin sem eiga aðild að nefndinni bera allan kostnað af rekstri hennar. Tilgangurinn með nefndinni er að bjóða upp á skjótvirkt úrræði til að fá skorið úr því hvernig skipta beri ábyrgð samkvæmt umferðarlögum þegar ágreiningur rís um málsatvik, sök eða sakarskiptingu í tengslum við umferðaróhöpp.
Málsmeðferð nefndarinnar tekur að jafnaði ekki lengri tíma en eina viku. Hlutaðeigandi vátryggingafélag sér um að vísa málum til nefndarinnar að ósk aðila og tilkynna aðilum máls um niðurstöðu nefndarinnar.
Álit tjónanefndar eru ekki bindandi. Vátryggingafélög skulu vekja athygli málsaðila á því að álit nefndarinnar eru ekki bindandi og að þeir eigi þess kost að skjóta ágreiningsmáli til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum eða eftir atvikum til almennra dómstóla.