Ræða framkvæmdastjóra SFF á ársfundi FME
Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri SFF var einn af ræðumönnum á ráðstefnu FME 15. nóvember sl., í kjölfar aðalfundar FME. Í ræðu sinni, sem bar yfirskriftina; Uppbygging á trausti fjármálakerfis, velti hann fyrir sér spurningunum; Hvar vorum við? Hvar erum við nú? og Hvert stefnum við? Guðjón rakti það sem gert hefur verið í enduruppbyggingu fjármálakerfisins á Íslandi frá falli bankanna. Hann rakti aðdraganda hrunsins, viðbrögð við hruninu sjálfu og fór yfir í hvaða aðgerðir hefði verið ráðist. Guðjón benti á að vandamál dagsins í dag væru enn mjög stór, vantraust á stjórnvöld, stjórnsýslu og fjármálakerfið í heild sinni. Gjaldeyrishöft væru enn við líði, heimili og fyrirtæki berðust við vaxandi skuldir á sama tíma og eignir hefðu fallið í verði, efnahagslegur samdráttur fjölskyldna og fyrirtækja væri verulegur. Guðjón áréttaði að mikið hefði verið gert í úrlausn skuldavandans, og að sú vinna hefði verið leidd af bankakerfinu, en enn væri þó langt í land.
Guðjón gerði þær miklu breytingar á regluverki fjármálamarkaðar sem eru í farvegi alþjóðlega jafnt sem í einstökum ríkjum að umtalsefni. Þær væru nauðsynlegar, en á sama tíma væri óvissan um framtíðarregluverk fjármálamarkaðar að skapa nýja áhættu fyrir fjármálakerfið. Mikilvægt væri að hafa i huga að regluverk kæmi ekki í veg fyrir fjármálakreppur, siðferði og starfshættir vigtuðu hins vegar þungt.
Guðjón benti á þá staðreynd að í fjármála- og vátryggingageiranum störfuðu samtals um 4.100 manns. Þetta fólk hefði gengið í gegnum mikla eldskírn og ótrúlega erfiða upplifun í hruninu og í kjölfar þess. Hann benti hins vegar á að þessi reynsla sem fylgdi slíkum hamförum væri ómetanleg og gerði þá að enn betri og reyndari starfsmönnum – til lengri tíma litið – og hæfari til að miðla reynslu til nýrra starfsmanna.
Í ræðu sinni rakti Guðjón nokkur atriði sem hann teldi mikilvægt að lenda áður en hægt væri að segja að endurskipulagningu fjármálakerfisins lyki. Skulda- og greiðsluvanda heimila og fyrirtækja þarf að leysa. Það er forsenda endureisnar atvinnulífsins og heilbrigðs fjármálakerfis. Huga þarf að endurbótum á innstæðutryggingakerfinu til að skapa gæti aukið traust á fjármálakerfinu. Í tengslum við það þarf að huga að því að afnema forgang innstæðna í þrotabú innlánsstofnana en þau ákvæði hefta aðra fjármögnun banka. Jafnframt þarf að huga að frekara afnámi gjaldeyrishaftanna. Árangur á öllum þessum sviðum er forsenda endurreisnar fjármálakerfisins og þess að það geti veitt samkeppnishæfa þjónustu við bankakerfi nágrannalandanna.
Í niðurlagi ræðu sinnar vék Guðjón aftur að skuldavanda heimila og fyrirtækja . Hann benti á að fjármálafyrirtækin hefðu kynnt fjölmörg og öflug úrræði til handa viðskiptavinum. Þrátt fyrir þetta hefðu margir skuldarar enn beðið átekta í þeirri von að líkur væru á enn betri leiðum. Hann benti á að stjórnmálamenn hefðu ekki flýtt fyrir á þessu sviði og oft á tíðum ýtt undir óvissuna. Mikilvægt væri nú að mynda breiða samstöðu um að ljúka þessum verkefnum.
Ræða Guðjóns er á ensku og hana má nálgast í heild sinni með því að smella hér.