Peningaþvætti

Hvað er peningaþvætti?

Talað er um að hvítþvo fjármuni eða peningaþvætti þegar uppruni fjárs sem er illa fengið er hulinn eða hann leyndur svo að fjármunanna virðist hafa verið aflað með löglegri starfsemi. Illa fengið fé getur t.d. átt uppruna sinn í fíkniefnabroti, stórfelldu skattabroti eða auðgunarbroti. Með því að leyna uppruna fjárs vegna slíkra brota er komið í veg fyrir að upp komist um eignarhald þessa fjárs en aðilum engu að síður gert kleift að nota það án grunsemda.

Dæmi um þetta má nefna að afrakstur fíkniefnasölu getur verið mikill og yfirleitt um reiðufé að ræða. Ef um umtalsverða fjármuni er að ræða getur verið erfitt fyrir fíkniefnasala að útskýra fyrir fjármálafyrirtæki hvers vegna hann vill leggja svo mikið reiðufé inn á reikning. Á sama hátt myndi t.d. vekja grunsemdir ef hann reyndi að kaupa sér fasteign eða dýra skartgripi með reiðufé.

Vegna þessa er nauðsynlegt fyrir fíkniefnasalann að þvætta þetta illa fengna fé og láta líta út fyrir að því hafi verið aflað heiðarlega. Hann getur t.d. stofnað rekstur í atvinnugrein sem almennt er viðurkennt að skili miklum tekjum í reiðufé, fært hina illa fengnu fjármuni inn í reksturinn og greitt sér laun eða arð af þeim. Þá fær hann reiðufénu breytt í laun eða arð sem hann getur lagt inn á bankareikning og tekið þaðan út og notað án grunsemda.

Lagaleg skilgreining peningaþvættis

Peningaþvætti er skilgreint í 1. tölul. 3. gr. laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka:  Það er peningaþvætti  þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 eða öðrum lögum. Hér er einnig átt við það þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Ávinningur er hvers kyns hagnaður og eignir hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 64/2006.

Peningaþvætti er sjálfstætt refsivert brot samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. skal hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á almennum hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings sæta fangelsi allt að 6 árum. Í 3. tölul. 4. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot gegn 264. gr. framið innan íslenska ríkisins enda þótt frumbrotið sem ávinningur stafi frá hafi verið framið erlendis og án tillits til hver var að því valdur.

Aðilar sem lög um peningaþvætti ná til

Samkvæmt a– m-lið 1. mgr. 2. mgr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka bera ákveðnir aðilar ýmsar skyldur svo sem að gera áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum og tilkynna til lögreglu ef grunur vaknar um peningaþvætti. Þessir aðilar eru:

 • Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
 • Líftryggingafélög og lífeyrissjóðir.
 • Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum söfnunartengdum tryggingum samkvæmt 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994.
 • Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir upptalninguna hér að framan.
 • Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta.
 • Lögmenn og aðrir lögfræðingar í ákveðnum tilvikum.
 • Endurskoðendur.
 • Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
 • Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 • Þjónustuaðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu.
 • Einstaklingar eða lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti, eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga þegar greiddir eru út vinningar.
 • Greiðslustofnanir og umboðsaðilar þeirra samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.


Financial Action Task Force (FATF)


Vegna vaxandi hættu á peningaþvætti í gegnum fjármálakerfi heimsins var ákveðið á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París í júlí 1989 að setja á laggirnar alþjóðlegan framkvæmdahóp, Financial Action Task Force (FATF), til að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið yrði misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð. Árið 2001 var aðgerðum gegn fjármögnun hryðjuverka bætt við hlutverk FATF. Þau ríki sem tekið hafa þátt í samstarfinu hafa verið fremst í flokki á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með því skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tillögum FATF.
FATF hefur gefið út 40 tilmæli sem aðildarríkin skuldbinda sig til að fara eftir en að auki hafi verið gefin út 9 sérstök tilmæli sem varða aðgerðir til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka.
FATF gerði úttekt á aðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka haustið 2006. Skýrslan leiddi í ljós að gera þurfti breytingar á íslenskri löggjöf til að Ísland uppfyllti öll tilmælin.
Fulltrúar íslenskra stjórnvalda komu fyrir matsnefnd FATF haustið 2008 og haustið 2009 í þeim tilgangi að gera grein fyrir þeim úrbótum sem átt höfðu sér stað frá úttektinni 2006. Gerðar hafa verið nokkrum sinnum úrbætur á löggjöf hér á landi til að tryggja að Ísland uppfylli öll tilmæli FATF. SFF leggja ríka áherslu á að íslenskt lagaumhverfi og starfshættir fjármálafyrirtækja hér á landi séu í samræmi við það sem best gerist hjá aðildarríkjum FATF. Framangreindar lagabreytingar og það alþjóðasamstarf sem Ísland er aðili að á þessu sviði er mikilvægur liður í að efla traust á íslensku viðskiptalífi.
 

Innlendir tenglar:

 

Peningaþvættiskrifstofa ríkislögreglustjóra

Bæklingur SFF um peningaþvætti - Ert þú örugglega þú? (sjá pdf skjal)

Ársskýrsla peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2006

Skýrsla peningavættiskrifstofu ríkislögreglustjóra 2009 og 2010

Fyrirlestur ríkislögreglustjóra um peningaþvætti (Desember 2007)

Erlendir tenglar:

Financial Action Task Force (FATF)

Matsskýrsla FATF um Ísland 2006

Heimasíða norska fjármálaeftirlitsins um peningaþvætti

Interpol um peningaþvætti

Egmont Group (alþjóðasamstarf peningaþvættisskrifstofa)