Flokkar vátrygginga

Efirfarandi er listi og skilgreiningar á helstu flokkum vátrygginga:

Skaðatryggingar 

Með skaðatryggingu er átt við vátryggingu gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð eða kostnaði og aðra vátryggingu sem ekki er persónutrygging. Dæmi um skaðatryggingar eru munatryggingar, þ.e. vátryggingar á fasteignum og lausafé og ábyrgðartryggingar. Í munatryggingum er oft vátryggt gegn tiltekinni áhættu (tjónsorsökum) sem tilgreind er í vátryggingarsamningi. Einnig þekkjast svokallaðar altryggingar (e. all risks tryggingar).

Ábyrgðartryggingar

Slíkar tryggingar tryggja gegn þeirri áhættu að vátryggður verði fyrir fjárútlátum vegna skaðabótakrafna sem á hann kunna að falla. Ábyrgðartryggingar tryggja tjónþola rétt til bóta sem annars þyrfti að treysta alfarið á greiðslugetu bótaskylds tjónvalds.tjóni sem hann ber skaðabótaábyrgð á. Í VSL eru almennar reglur um umfang ábyrgðar félags í skaðatryggingum þegar vátryggingaratburður verður. Þar er við það miðað að almennt sé samningsatriði hver sé vátryggingarfjárhæðin, hvaða tjón skuli bætt og hvernig bætur skuli ákveðnar. Í 35. gr. VSL eru reglur sem beitt er ef ekki er um annað samið. Gert er ráð fyrir því að vátryggður eigi rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Sé samið um vátryggingarverð hlutar og hvernig það skuli ákveðið teldist það vera fullar bætur fyrir hlutinn. Sé ekki samið um hvert skuli vera vátryggingarverð þá teldust bætur ákveðnar samkvæmt reglum skaðabótaréttarins vera fullar bætur. Hámark bóta er þó alltaf vátryggingarfjárhæðin.

Persónutryggingar

Persónutryggingar eru vátryggingar þar sem áhættan, sem vátryggt er gegn, er bundin lífi og heilsu þess sem tryggður er, þ.e. líftryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Flestar persónutryggingar eru svokallaðar summutryggingar.

Summutryggingar

Þær einkennast af því að bætur í þeim fara eftir fyrirfram umsömdum fjárhæðum í vátryggingarsamningi. Ekki þarf að sanna að fjártjón hafi orðið né hversu mikið fjártjón. Dæmi um summutryggingu er áhættulíftrygging, þar sem samið er um ákveðna fjárhæð sem kemur til greiðslu ef líftryggður deyr á líftryggingartímanum. Ekki eru allar persónutryggingar summutryggingar.

Sjúkrakostnaðartryggingar

Sjúkrakostnaðartryggingar greiða bætur í samræmi við raunverulegan kostnað og slysatrygging ökumanns greiðir bætur samkvæmt reglum skaðabótalaga nr. 50/1993. Persónutryggingum er einnig skipt í höfuðstólstryggingar og lífeyristryggingar. Eiginlegar líftryggingar skiptast í áhættulíftryggingar og söfnunarlíftryggingar. Í summutryggingum varðar engu hvort vátryggður hefur beðið fjártjón eða ekki. Í summutryggingum eru vátryggingarbæturnar ákveðnar fyrirfram (yfirleitt við töku vátryggingarinnar), með ákveðinni „summu", og dregur þessi flokkur trygginga nafn sitt þaðan. Sem dæmi um algengar summutryggingar má nefna flestar slysatryggingar. Í flestum algengustu tegundum slysatrygginga eru bæði ákvæði um greiðslu dagpeninga á meðan viðkomandi er óvinnufær og ákvæði um greiðslu tiltekins höfuðstóls, sem reiknast út frá þeirri varanlegu, læknisfræðilegu örorku sem viðkomandi hlýtur af slysi sínu. Verði maður óvinnufær og hljóti varanlega örorku í kjölfar slyss, á hann að öðrum skilyrðum uppfylltum rétt til greiðslu dagpeninga og bóta vegna varanlegrar örorku án tillits til þess hvort hann hefur orðið fyrir fjártjóni, svo sem tekjutapi, vegna slyssins. Nokkrar algengar vátryggingategundir.

Algengar tryggingar á Íslandi

Meðal algengustu vátrygginga almennings á Íslandi eru ábyrgðartryggingar vegna bifreiða og annarra vélknúinna ökutækja, slysatryggingar ökumanna, fasteigna- og brunatryggingar ýmiss konar, innbústryggingar, líftryggingar, lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Þá bjóða flest íslensk vátryggingafélög fjölskyldum og einstaklingum upp á svokallaðar „heimilistryggingar" eða „fjölskyldutryggingar" Hér er um að ræða nokkurs konar vátryggingapakka sem innihalda nokkrar gerðir vátrygginga, svo sem slysatryggingu og ábyrgðartryggingu heimilisfólks, auk innbústryggingar og eftir atvikum aðrar gerðir vátrygginga.