Hvað eru vátryggingar?

Vátryggingar eru eitt form fjárhagslegrar áhættudreifingar. Að baki þeim liggur sú grundvallarhugsun að komast hjá eða draga úr tjóni. Fáir komast í gegnum lífið án þess að verða fyrir einhvers konar tjóni. Einstaklingar geta átt á hættu að veikjast eða lenda í slysi, sem veldur þeim tekjutapi. Fyrirtæki eiga á hættu að lenda í því, að framleiðsluvörur þeirra valda neytendum þeirra tjóni. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir eiga á hættu að verða fyrir tjóni vegna þess, að eignir þeirra eyðileggjast í bruna eða þeim er stolið. Þannig mætti lengi telja.

Í vátryggingum felst í grófum dráttum, að einn aðili (vátryggingartaki) semur við annan (vátryggjanda / vátryggingafélag) um að hinn síðarnefndi greiði bætur ef tiltekið atvik gerist / gerist ekki.

Í vátryggingarétti er í þessu sambandi gjarnan talað um að vátryggjandinn greiði bætur ef tiltekin áhætta verður virk. Sem dæmi um tilvik, þegar tiltekin áhætta verður virk, má nefna þau tilvik þegar tjón verður á bifreið (húftrygging bifreiðar/kaskótrygging), maður slasast og hlýtur varanlega örorku af (slysatrygging), maður veikist af sjúkdómi og verður óvinnufær (sjúkratrygging), innbúi er stolið úr fasteign (fjölskyldu-, heimilis- eða innbústrygging) og þegar fasteign skemmist í bruna (brunatrygging fasteigna). Í öllum þessum tilvikum hefur áhætta orðið virk í skilningi viðkomandi vátryggingar. Er þá líka stundum talað um að vátryggingaratburðurinn hafi gerst.

Það er ekki alltaf vátryggingartakinn sjálfur (sá sem semur við vátryggingafélagið), sem fær greiddar bætur úr vátryggingu þegar áhætta verður virk. Sá aðili, sem á rétt á bótunum, er jafnan kallaður vátryggður. Oft eru vátryggingartaki og vátryggður sami aðilinn, svo sem þegar maður tekur slysatryggingu fyrir sjálfan sig og lendir síðar í slysi. Í því tilviki ætti vátryggingartakinn rétt á bótum vegna afleiðinga slyssins, þar sem hann er einnig vátryggður. Í öðrum tilvikum eru vátryggingartaki og vátryggður hins vegar ekki sami aðilinn. Það á t.d. við þegar maður tekur líftryggingu vegna eigin lífs, og tilnefnir annan aðila, t.d. maka sinn, sem viðtakanda bótanna. Í því tilviki er það í raun maki vátryggingartakans sem er vátryggður. Það sama á við þegar t.d. foreldrar taka fjölskyldutryggingu. Verði innanstokksmunum í eigu barna þeirra stolið af heimili þeirra, kunna börnin að eiga rétt til bóta úr tryggingunni.