Reglur, bótasjóðir og eftirlit

Hvaða reglur gilda um vátryggingar?

Lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga (VSL) eru meginréttarheimildin um vátryggingarsamninga. Í VSL er að finna helstu reglur um samband vátryggingartaka, vátryggðs og vátryggingafélagsins. Í lögunum er m.a. að finna reglur um áhrif þess að vátryggingartaki gefur rangar upplýsingar við töku tryggingar, áhrif þess að hinn vátryggði veldur vátryggingaratburðinum með ásetningi eða gáleysi, áhrif þess að brotið er gegn varúðarreglum og fyrirmælum í vátryggingaskilmálum, gjalddaga krafna um vátryggingarbætur, fresti til að tilkynna um tjón og setja fram bótakröfur, brot á upplýsingaskyldu við bótauppgjör, áhrif tómlætis vátryggðs/kröfuhafa, fyrningarreglur o.fl. Þá er einnig að finna í lögunum sérstök ákvæði varðandi einstakar tegundir trygginga, svo sem ábyrgðartryggingar og líftryggingar.

Í VSL eru ekki tæmandi reglur um vátryggingarsamninga. Einu ákvæðin í lögunum sem fjalla um samningsgerðina eru ákvæðin varðandi upplýsingaskyldu félagsins og vátryggingartaka. Um önnur atriði fer samkvæmt reglum samningaréttar. Þá ræðst efni vátryggingasamnings að verulegu leyti af vátryggingarskilmálum sem eru hluti samningsins. Í skilmálum er meðal annars kveðið á um gildissvið vátryggingar.


Vátrygingaskuld - bótasjóðir vátryggingafélaga

Vátryggingafélög þurfa ávallt að geta uppfyllt fjárhagslegar skuldbindingar sínar og mætt þeirri áhættu sem í starfseminni felst. Í lögum nr.56/2010 um vátryggingastarfsemi er að finna mikilvægar reglur sem gilda á EES svæðinu um fjárhagsgrundvöll vátryggingafélaga. Samkvæmt reglunum skal gjaldþol vátryggingafélaga á hverjum tíma nema tilteknu lágmarki sem er reiknað með tilliti til þeirrar starfsemi sem fram fer og áhættunnar sem í henni felst. Vátryggingaskuld skal metin á þann veg að hún samsvari óuppgerðum heildar­skuldbindingum vátryggingafélags vegna gerðra vátryggingasamninga. Í eldri lögum var vátryggingaskuld kölluð bótasjóður. Vátryggingaskuldin skiptist í nokkra undirflokka. Helstu flokkarnir eru iðgjaldaskuld, þar sem færðar eru skuldbindingar vegna iðgjalda sem greidd eru fyrirfram (skuld vegna óorðinna tjóna) og tjónaskuld, þar sem færðar eru skuldbindingar vegna tjóna sem orðið hafa en eru ekki að fullu uppgerð í lok reikningsárs. Aðrir flokkar eru útjöfnunarskuld og ágóðaskuld. Upphæð vátryggingaskuldar ræðst af mati félagsins á þessum þáttum. Auk þess að uppfylla á hverjum tíma gjaldþolsskilyrði samkvæmt lögunum skulu vátryggingafélög sjá til þess að á hverjum tíma séu fyrir hendi sérstaklega tilgreindar eignir til jöfnunar vátryggingaskuldinni. Eignirnar skulu valdar með tilliti til öryggis, ávöxtunar og markaðsaðstæðna og skal félagið tryggja fjölbreytni og dreifingu eignanna. Sett hefur verið ítarleg reglugerð um tegundir eigna sem má telja til jöfnunar á móti vátryggingaskuld vátryggingafélags, samsetningu þeirra og vægi. Um fjárfestingar þessara eigna gilda strangar reglur sem takmarka með hvaða hætti má ráðstafa þeim eignum sem vátryggingafélag notar til að mæta vátryggingaskuld. Reglur um vátryggingaskuld hafa mikla þýðingu fyrir starfsemi vátryggingafélaga, enda er vátryggingaskuldin langstærsti liður skuldamegin í efnahagsreikningi þeirra. Í einfaldri mynd er efnahagsreikningur vátryggingafélaga þannig samsettur að skuldamegin er eigið fé og vátryggingaskuld. Eignamegin í efnahagsreikningi eru annars vegar eignir sem mæta eiga vátryggingaskuld og svokallaðar frjálsar eignir sem eru umfram vátryggingaskuld. Stjórn vátryggingafélags skal sjá til þess að sérþekkingu sé að finna innan félagsins til að meta vátryggingaskuldina og til að gera aðra nauðsynlega tryggingafræðilega útreikninga. Líftryggingafélög skulu tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings eða sérfræðings með sambærilega þekkingu. Viðkomandi aðili skal fylgjast með því að farið sé eftir reiknigrundvelli iðgjalda, iðgjaldasjóðs og ágóðaúthlutunar o.fl. Ástæðan fyrir því hve mikil áhersla er lögð á mat vátryggingaskuldarinnar er hið mikla vægi sem hún hefur í öllum rekstri vátryggingafélags, enda langstærsti liðurinn skuldamegin í efnahagsreikningi. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að reglum um fjárhagsgrundvöll og vátryggingaskuld sé framfylgt.

Eftirlit með vátryggingastarfsemi

Í lögum nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi eru meðal annars reglur um stofnun og starfsemi vátryggingafélaga og eftirlit með starfsemi þeirra. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með vátryggingarstarfsemi samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.