Vátryggingasamningar og skilmálar

Kaup á vátryggingum - gerð vátryggingarsamnings

Þegar aðili óskar eftir því að vátryggja hagsmuni sína snýr hann sér til vátryggingafélags með beiðni um vátryggingu. Við kaup á vátryggingum er þess stundum krafist að vátryggingartaki fylli út skriflega umsókn um vátryggingu. Þar veitir hann upplýsingar um þá hagsmuni sem vátryggja skal. Mikilvægt er að allar upplýsingar í vátryggingarumsókn séu réttar.

Það er mikilvægt fyrir félagið að afla sem bestra upplýsinga um áhættuna sem það ætlar að taka að sér. Upplýsingar um áhættuna koma til skoðunar þegar taka þarf ákvörðun um það hvort félagið vill yfirleitt selja umbeðna vátryggingu. Upplýsingar um áhættuna eru einnig nauðsynlegar til þess að iðgjaldið verði ákvarðað í samræmi við hana.

Í VSL er kveðið á um upplýsingaskyldu vátryggingartaka og félagsins við töku og endurnýjun vátrygginga. Meginreglan samkvæmt lögunum er sú, að vátryggingartaki/vátryggður uppfylli upplýsingaskyldu sína með því að veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Auk þess ber vátryggingartaka/vátryggðum að hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit eða má vita að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.  Vanrækt upplýsingaskylda við töku vátryggingar getur haft í för með sér að ábyrgð félagsins vegna vátryggingar fellur niður í heild eða hluta samkvæmt reglum VSL.

Á félaginu hvílir einnig skylda til að veita vátryggingartaka tilteknar upplýsingar við töku og endurnýjun vátrygginga og í ákveðnum tilvikum á vátryggingartímanum.   Í skaðatryggingum ber félaginu meðal annars við töku vátryggingar að veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að vátryggingartaki geti metið tilboð félagsins.  Sérstaklega skal gera grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir eru á gildissviði vátryggingarinnar eða þeirri vernd er hún veitir.  Skyldur félagsins hvað varðar upplýsingagjöf eru ríkari í persónutryggingum en skaðatryggingum.  Í tengslum við sölu persónutrygginga ber félaginu að veita vátryggingartaka nauðsynlega ráðgjöf um hvernig þörfum hans um vátryggingavernd er mætt með vátryggingunni.

Við kaup á vátryggingu kemst á samningur um vátrygginguna, vátryggingarsamningur, milli kaupanda vátryggingarinnar (vátryggingartaka) og félagsins.  Samningurinn byggir á stöðluðum vátryggingarskilmálum og um hann gilda lög um vátryggingarsamninga (VSL).

Þegar vátryggingarsamningur hefur verið gerður skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á að samningur sé kominn á.  Í vátryggingarskírteini skal vísað til þess hvaða skilmálar skuli gilda um vátrygginguna.  Að auki skal félagið afhenda skilmálana.  Í vátryggingarskírteini skulu meðal annars koma fram upplýsingar um heiti vátryggingar, gildistíma samnings, nafn vátryggingartaka, iðgjaldið og gjalddaga þess, þau ákvæði samningsins sem ekki koma fram í skilmálum, svo sem varðandi það hvaða hagsmunir eru tryggðir, vátryggingarfjárhæð, upplýsingar um eigin áhættu, hver á rétt á að fá vátryggingarbætur greiddar, hvaða frestur er til að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið auk áréttingar til vátryggingartaka um að hann kynni sér skilmála vátryggingarinnar að því er varðar fyrirvara er tengjast greiðslu iðgjalds, takmörkun ábyrgðar, varúðarreglur er gilda um vátrygginguna og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð.


Vátryggingarskilmálar

Segja má að réttur vátryggingartaka og vátryggðs ráðist að einna mestu leyti af þeim skilmálum, sem gilda hjá viðkomandi vátryggingafélagi um vátrygginguna.  Vátryggingarskilmálarnir teljast hluti af vátryggingarsamningnum milli vátryggingartaka og félagsins.

Vátryggingarskilmálar eru staðlaðir skilmálar sem félagið semur einhliða og þeir eiga að gilda um allar vátryggingar sömu tegundar.  Hægt er að nálgast skilmálana hjá vátryggingafélögunum, en algengt er að félögin sendi viðskiptavinum sínum skilmálana í kjölfar þess að vátrygging er tekin.

Í skilmálum eru ákvæði um gildissvið vátryggingarinnar, þar sem tilgreind eru mörk þeirrar áhættu sem félagið tekur á sig, þ.e.  þ.e. hvaða áhættu vátryggingin tryggir gegn.  Í skilmálum eru einnig ákvæði um réttindi og skyldur félagsins, vátryggingartaka og vátryggðs við samningsgerð, á vátryggingartímanum og þegar tjón verður.

Ef vikið er frá ákvæðum staðlaðra skilmála til þengingar eða rýmkunar á gildissviði vátryggingarinnar er talað um sérskilmála.

Heimild félags til þess að semja um vátryggingarskilmála takmarkast af ófrávíkjanlegum reglum VSL og löggjöf um lögboðnar vátryggingar.