Íslendingar duglegir að færa sig milli fjármálafyrirtækja

Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) sem leiddi í ljós að íslenskir neytendur eru óvenju duglegir að færa viðskipti sín á milli fjármálafyrirtækja. Í könnun Gallup var borinn saman hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi við hreyfanleika neytenda í aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB). Þar kom í ljós að mun hærra hlutfall Íslendinga hefur á undanförnum fimm árum fært greiðslukorta-, sparnaðarreikninga- og húsnæðislánaviðskipti sín á milli þjónustuaðila en í ríkjum ESB.

Þannig höfðu 17% íslenskra svarenda fært húsnæðislán sín á milli fjármálastofnana sem er meira en tvöfalt hærra hlutfall en hjá næsta landi á listanum þar sem 8% höfðu fært lánaviðskipti sín. Þegar heildarhlutföllin eru skoðuð hafa 48% Íslendinga fært viðskipti sín, og er það hærra hlutfall en hjá nokkru ESB-landi, en sem dæmi mældist hlutfallið 38% í Svíþjóð, 32% í Danmörku og 27% í Lúxemborg. Lægst er hlutfallið í Belgíu þar sem hreyfing viðskiptavina á milli fjármálafyrirtækja mælist aðeins 21%.

Auðveldara að fyrir neytendur að færa viðskipti sín

Rætt er við Ingvar Haraldsson, greininga og samskiptastjóra SFF, í fréttinni sem bendir á að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða á síðustu árum til að auðveldara íslenskum neytendum að flytja sig á milli þjónustuaðila. „Á undanförnum tíu til fimmtán árum hefur margt verið gert til að draga úr kostnaði neytenda við að skipta um banka og lánveitanda. Þá hafa nýir aðilar komið inn á markaðinn og náð að laða til sín viðskiptavini. Tækniframfarir koma líka við sögu enda þarf t.d. ekki í dag að starfrækja útibú í næsta nágrenni við neytendur til að geta veitt þeim fjármálaþjónustu og með rafrænum skilríkjum getur fólk m.a. stofnað reikning hjá hvaða banka sem er í gegnum heimabanka eða snjallsímaforrit, hvar sem er á landinu,“ segir Ingvar við Morgunblaðið.

Ingvar bendir jafnframt á að breytingar á lagaumgjörð húsnæðislána hafi vafalítið komið hreyfingu á markaðinn og margir valið að skipta úr hefðbundnum 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum yfir í óverðtryggð lán með ýmist breytilegum eða föstum vöxtum. Þá hafi reglum um stimpilgjöld verið breytt svo að ódýrara varð að skuldbreyta húsnæðislánum, og loks komu lífeyrissjóðirnir af auknum krafti inn á þennan hluta fjármálamarkaðarins. „Enn fremur hafa komið til sögunnar samanburðarvefsíður sem gera neytendum auðvelt að fylgjast með hver býður bestu kjörin hverju sinni, og stundum þarf ekki nema nokkra smelli í snjallsímanum til að færa viðskiptin þangað sem bestu kjörin fást,“ segir Ingvar.

Það hafi oftar en ekki komið Íslendingum á óvart hve mikið umstang og kostnaður geti fylgt því að stofna til bankaviðskipta víða annars staðar í Evrópu og t.d. hafi fólk rekið sig á að í sumum löndum geti þurft að borga fyrir að stofna bankareikning.

Veiti fjármálafyrirtækjum aðhald

Í umfjöllun Morgunblaðsins er einnig bent á að þróunin leiði af sér að íslensk fjármálafyrirtæki þurfi að vera á tánum þar sem ljóst sé að allstór hluti neytenda hiki ekki við að flytja viðskipti sín annað. „Þetta er til marks um heilbrigðan og fjölbreyttan markað með virka samkeppni, og rétt að minna á þá staðreynd að hjá þessari tæplega 400.000 manna þjóð er hægt að stofna innlánsreikning hjá níu ólíkum fjármálafyrirtækjum,“ segir Ingvar við Morgunblaðið.

Þá kemur jafnframt fram að nýlegt rit Seðlabankans sýni að á Íslandi hafa vextir innlánsreikninga fylgt hækkun stýrivaxta mun betur en á evrusvæðinu og í Noregi og þá hafi vaxtamunur heimilanna einnig lækkað að undanförnu samkvæmt gögnum Seðlabankans.

Umfjöllun Morgunblaðsins.