Líflegar umræður á vel sóttum SFF degi

Margt fróðlegt kom fram á SFF deginum sem fór fram miðvikudaginn 3. apríl síðastliðinn. Vel á annað hundrað gestir sóttu ráðstefnuna sem fór fram undir yfirskriftinni Að vaxa með þjóðinni – fjármálaþjónusta á Íslandi í 150 ár.

Þar kynnti Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka og formaður stjórnar SFF, meðal annars niðurstöður könnunar Gallup fyrir SFF þar sem fram kom að hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi mældist meiri en hjá öllum ríkjum Evrópusambandsins í sambærilegri könnun sem unnin var fyrir Evrópuráðið. Þannig mældist meiri hreyfanleiki á Íslandi samkvæmt könnun Gallup mestur allra ríkja þegar kom að hreyfanleika sparnaðarreikninga, greiðslukorta og húsnæðislána. Yfir það heila var mestur hreyfanleiki á tryggingamarkaði hér á landi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt ávarp þar sem hún fjallaði meðal annars um samkeppnishæfni íslenskrar fjármálaþjónustu. Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, fór í erindi sínu yfir þróun í fjármálaeftirliti í fortíð og nútíð.

Kari Olrud Moen, framkvæmdastjóri Finans Norge, systursamtaka SFF í Noregi, fór yfir helstu áskoranir sem fjármálageirinn í Noregi stendur frammi fyrir og þá flutti, Dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík erindi um gullhúðun á fjármálamarkaði og tillögur að úrbótum á því sviði.

Fjörlegar pallborðsumræðum fóru fram undir stjórn Kjartans Smára Höskuldssonar, framkvæmdastjóra Íslandssjóða. Þar tóku þátt Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance, Dr. Margrét Einarsdóttir prófessor og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þá gaf Viðskiptablaðið út veglegt sérblað í tengslum við SFF daginn sem nálgast má hér.

Horfa má á upptöku af deginum hér sem og að nálgast glærur fyrirlesara.

Stjórnarkjör á aðalfundi SFF

Aðalfundur SFF fór einnig fram 3. apríl, þar sem fór fram hefðbundið stjórnarkjör. Stjórn SFF er nú skipuð eftirfarandi aðilum í stafrófsröð:

- Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, formaður stjórnar.

- Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS trygginga.

- Jón Ingvi Árnason, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga.

- Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

- Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna.

Varastjórn:

- Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.

- Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance.