Meirihluti jákvæður gagnvart sínum viðskiptabanka

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í síðdegisútvarpi Rásar 2 um árlega könnun Gallup á trausti til stofnana, þar sem traust til bankakerfisins hefur lækkað undanfarin tvö ár og mældist nú lægst þeirra stofnana sem spurt er um í könnuninni. Heiðrún sagði niðurstöðuna eitthvað sem bæri að taka alvarlega og ljóst væri að það tæki tíma að vinna traust.

Heiðrún benti jafnframt á að þegar fólk er spurt út í afstöðu til síns viðskiptabanka sé það mun jákvæðara en þegar það er spurt um afstöðu til fjármálakerfisins í heild. Í nýlegri könnun Gallup, sem unnin var fyrir SFF, hafi til að mynda rétt rúmlega helmingur aðspurða sagst hafa jákvætt viðhorf í garð síns viðskiptabanka, þriðjungur sagðist hvorki jákvæður né neikvæður en 16% neikvæður. Það gefi því aðra mynd en þegar spurt er út í kerfið í heild eða fjármálafyrirtæki almennt.

Vafalaust væru ýmisir aðrir þættir sem hefðu áhrif á mælingu á trausti. Eflaust sé afstaða fólks til orðsins kerfi fremur neikvæð. Þá hafi núverandi vaxtastig líklega áhrif á mælingu á trausti til bæði bankakerfisins og Seðlabankans, enda reis hvoru tveggja þegar vextir fóru lækkandi árin 2020 og 2021 en hefur svo lækkað á ný samhliða hækkandi vaxtastigi. Seðlabankinn hefði hins vegar skyldum að gegna og með stýrivaxtahækkunum væri verið að bregðast við ástandi í efnahagslífinu sem leitt hefði af sér of mikla verðbólgu. Það væri sameiginlegt verkefni þjóðfélagsins í heild að ná niður verðbólgu og í kjölfarið vaxtastiginu.

Neikvæð umræða um fjármálageirann kæmi við þá um 3.000 starfsmenn sem starfa í greininni. Sá hópur sinni sínum störfum af samviskusemi og hafi almennt lítið um þá þætti að segja sem jafnan eru nefndir eru í tengslum við gagnrýni á fjármálakerfið.Engu síður væri mikilvægt að halda áfram við vinnu við að endurheimta traust á fjármálageirann hér á landi.

Hlusta má á viðtalið hér.