Menntun og fræðsla

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa um ára skeið lagt töluverða áherslu aukið almennt fjármálalæsi og upplýsingagjöf til neytenda en góð þekking á eigin stöðu, getu og áhættu skilar betri niðurstöðu fyrir fjármálafyrirtæki, neytendur og samfélagið allt.

Áherslur í fræðslustarfi samtakanna eru að stuðla að bættu fjármálalæsi almennings með verkefninu Fjármálavit og hins vegar með námi fyrir starfsmenn til að mæta auknum kröfum neytenda um gæði upplýsinga með námi í vottun fjármálaráðgjafa og tryggingaráðgjafa. Að auki eru samtökin þátttakendur  í ýmsum fræðsluverkefnum með öðrum hagsmuna samtökum atvinnulífsins, á borð við hinn árlega Menntadag atvinnulífsins.

Fjármálavit

Ein af helstu áherslum SFF frá stofnun hefur verið að efla fjármálafræðslu einstaklinga og stuðla að því að slík fræðsla verði hluti af námskrá grunn- og framhaldsskóla.

Starfsemi Fjármálavits hófst árið 2015 þar sem helstu áherslur hafa verið að styðja kennara í kennslu í fjármálalæsi með aðgengi að fríu kennsluefni, námskeiðum fyrir kennara í fjármálum, viðburðum og reglulegu samtali við hagsmunaaðila og stjórnvöld um mikilvægi fjármálalæsis. Eftirspurn eftir kennsluefni og handleiðslu á vegum Fjármálavits hefur aukist jafnt og þétt gegnum árin en um 17.000 kennslubækur hafa verið gefnar í grunn- og framhaldsskóla auk þess sem nokkur hundruð kennara hafa sótt námskeið í fjármálalæsi. Frá árinu 2017 hefur vettvangurinn verið studdur af Landssamtökum lífeyrissjóða. Fjármálavit er góður vettvangur fyrir samvinnu skóla og atvinnulífs til að stuðla að bættu fjármálalæsi ungmenna.

Fjarmalavit Image

Tryggingaskólinn

Tryggingaskólinn hefur verið rekinn við góðan orðstír í tæplega 60 ár og útskrifað á annað þúsund nemendur.

Tryggingaskólinn á sér tæplega sextíu ára farsæla sögu.  Markmiðið með Tryggingaskólanum er að auka traust á vátryggingastarfsemi og gæði þeirrar ráðgjafar og upplýsinga sem viðskiptavinum er veitt. Til að ná tilsettum markmiðum þarf að samræma þær kröfur sem gerðar eru til þeirra starfsmanna sem sinna ráðgjöf og þjónustu til einstaklinga og fyrirtækja og eru innan aðildarfélaga SFF.

Árið 2014 var skipulagi skólans breytt og tekið upp sérstakt nám til vottunar í tryggingaráðgjöf í samstarfi við Opna háskólann. Árið 2023 var ákveðið að leggja vottunarnámið niður vegna breyttra þarfa í menntun starfsmanna. Lagaumhverfi  vátryggingastarfsemi kallar í dag á meiri þekkingu í tryggingalögfræði og var því gerður nýr samningur við Opna háskólann um fræðslu fyrir starfsfólk  vátryggingafélaga sem eykur lögfræðiþekkingu. Í febrúar 2024 hófst fyrsta námskeiðið.

Námskeiðið er stafrænt sem þýðir að þátttakendur geta horft á og tileinkað sér námsefnið á eigin hraða. Hvenær sem er og hvar sem er. Markmið Tryggingaskólans er að tryggja aðgang starfsfólks að nýju og uppfærðu efni um lögfræði sem varðar vátryggingastarfsemi sem eykur hæfni í flóknu starfsumhverfi og bætir ráðgjöf og þjónustu. Kennari námskeiðsins er Þóra Hallgrímsdóttir lögfræðingur og háskólakennari við lagadeild HR.  

Vottun fjármálaráðgjafa

Á þeim árum sem nám um vottun fjármálaráðgjafa stóð yfir luku um 300 starfsmenn banka og sparisjóða námi til vottunar.

Árið 2011 var undirritaður samningur milli SFF, Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja, Háskólans á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og stjórnvalda þess efnis að bjóða starfsmönnum fjármálafyrirtækja í einstaklingsráðgjöf upp á nám í vottun fjármálaráðgjafa.  Verkefnið sem var að norskri fyrirmynd var í eigu og umsjón SFF og stóð yfir til ársins 2019 en þá höfðu hátt í 300 starfsmenn útskrifast sem vottaðir fjármálaráðgjafar og flestir starfsmenn í einstaklingsráðgjöf komnir með viðeigandi menntun og eftirspurn eftir áframhaldandi vottunarnámi ekki lengur til staðar.

Markmið með vottunarnáminu var að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og enn fremur að tryggja nauðsynlega þekkingu og færni í starfi. Hlutverk vottaðra fjármálaráðgjafa er fyrst og fremst að veita viðskiptavinum faglega ráðgjöf og er vönduð og upplýst ráðgjöf til einstaklinga mikilvægur þáttur í rekstri fjármálafyrirtækja og er því óhætt að fullyrða að vottunarnámið hefur skilað  veigamiklum árangri í að tryggja gæði slíkrar ráðgjafar.