Hnotskurn: Dýrkeyptur bankaskattur

Sérstakir skattar á íslensk fjármálafyrirtæki eru teknir fyrir í Hnotskurn, nýrri ritröð SFF um fjármál og efnahagsmál. Í greiningu Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings SFF, kemur meðal annars fram að sérstakir skattar á borð við bankaskattinn rýra eignarhlut íslenska ríkisins í fjármálakerfinu um 150 milljarða að minnsta kosti.

Þrátt fyrir að finna megi einstaka dæmi um sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki á meginlandi Evrópu kemur fram í grein Yngva að þeir eru hvergi meira íþyngjandi en hér á landi. Hér á landi eru þrír skattar lagðir sérstaklega á fjármálafyrirtæki: bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun fjármálafyrirtækja,  er um 10 sinnum hærri hér á landi en almennt tíðkast hjá þeim Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt.

Þessi skattlagning hefur víðtæk áhrif. Þannig kemur fram í Hnotskurn að þessi sérstaka skattlagning eykur rekstrarkostnað fjármálafyrirtækja og veikir sam­keppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum fyrirtækjum. Afleiðingarnar eru að lánveitingar og fjármálaþjónusta flyst til aðila sem ekki lúta eftirliti FME sem fjármálafyrirtæki. Með öðrum orðum ýtir skattlagningin undir skuggabankastarfsemi sem svo eykur fjármálalega kerfisáhættu.