Tillögur um aðgerðir gegn reiðhjólaþjófnaði

Í september 2023 setti Reykjavíkurborg á laggirnar starfshóp um tillögur til aðgerða til að draga úr reiðhjólaþjófnaði. Óskað var eftir fulltrúa frá Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) í starfshópinn og tók Margrét Arnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur hjá SFF sæti í starfshópnum. Skýrslan var birt í apríl á vef Reykjavíkurborgar.

Í skýrslunni kemur fram að heildarfjöldi stolinna hjóla sem skráður var hjá lögreglu á tímabilinu 2021-2023 hafi verið um 1.660 hjól. Þá hafi kostnaður sem tryggingafélög verða fyrir sökum bótagreiðslna vegna stolinna reiðhjóla farið vaxandi á undanförnum árum. „Gera má ráð fyrir því að með áframhaldandi þróun í rafvæðingu hjóla og breyttum ferðavenjum fólks muni þessi kostnaður halda áfram að aukast ef ekki tekst að halda aftur af þjófnaði á reiðhjólum,“ segir m.a. í skýrslunni.

Tillögur til úrbóta voru níu talsins en ein tillaga snýr að vátryggingafélögum. Í tillögunni felst að hvetja vátryggingafélög til að fræða og upplýsa viðskiptavini sína markvisst um hættur á hjólreiðaþjófnaði og leiðir til þess að draga úr hættu á þjófnaði.

Úr tillögukafla skýrslunnar:

Vátryggingafélög auki forvarnarfræðslu sína

Upplýsi sína viðskiptavini markvisst um hættur og leiðir til þess að draga úr hættu á þjófnaði. Til viðbótar við forvarnarfræðslu til viðskiptavina almennt gætu vátryggingafélög lagt sérstaka áherslu á forvarnir þegar verðmæt hjól eru sértryggð. Þannig væri reynt aðkoma í veg fyrir að eigendur noti búnað sem veiti þeim falskt öryggi og telst ekki nógu öruggur til að koma í veg fyrir þjófnað þrátt fyrir að hjólinu hafi verið læst.

Skýrsluna má nálgast hér.