„Mikil samkeppni á vátryggingamarkaði“

Meðalafkoma íslenskra vátryggingafyrirtækja af vátryggingahluta starfseminnar, utan líftrygginga, var neikvæð að meðaltali á sjö ára tímabili á árunum 2017-2023. Ísland var eina landið af þrjátíu Evrópulöndum þar sem afkoma vátryggingahlutans var að meðaltali neikvæð á þessum tímabili samkvæmt tölum frá Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni (EIOPA). Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í vikunni og rætt við Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu undir fyrirsögninni „Mikil samkeppni á vátryggingamarkaði“.

Til þess að mæla afkomu af vátryggingahluta starfseminnar er stuðst við svokallað samsett hlutfall en það er samtala útgreiðslna vegna tjóna og rekstrarkostnaðar í hlutfalli við iðgjöld. Ef þetta hlutfall er hærra en 100% er tap af vátryggingahluta starfseminnar þar sem samanlagðar útgreiðslur vegna tjóna og rekstrarkostnaður er hærri upphæð en iðgjöld.

Hér á landi var þetta samsetta hlutfall ávallt hærra en 100% á þessu sjö ára tímabili nema árið 2021 þegar það var 96% sem skýrist m.a. af covid-faraldrinum, sem leiddi af sér mun minni umferð og þ.a.l. fækkun slysa. Það var mjög sjaldséð að eitthvert hinna 29 landanna væri með tap af vátryggingahluta starfseminnar á þessu tímabili eða í innan við 5% tilfella. Að meðaltali var samsetta hlutfallið 91,3% hjá hinum löndunum 29 á tímabilinu samkvæmt gögnum EIOPA. Annars staðar á Norðurlöndunum var samsetta hlutfallið á bilinu 85% til 96% en hlutfallið var lægst í Danmörku og hæst í Svíþjóð.

Gústaf segir í samtali við Morgunblaðið þessar tölur vísbendingu um hátt samkeppnisstig á innlendum vátryggingamarkaði. Hann bendir á í þessu samhengi að hreyfanleiki neytenda á íslenskum fjármálamarkaði hafi mælst umtalsvert meiri en í öllum löndum Evrópusambandsins.

Gústaf nefnir einnig að vægi ökutækjatrygginga, sem sé stærsti flokkur vátrygginga á Íslandi, sé það minnsta í samræmdri vísitölu neysluverðs á Norðurlöndum og nokkuð undir meðaltali Evrópusambandsins eða 0,4% á Íslandi miðað við 0,8% að meðaltali innan ESB og 0,5%-1,2% annars staðar á Norðurlöndum.

Ísland sker sig jafnframt verulega frá öðrum Evrópulöndum þegar kemur að svokölluðu tjónahlutfalli sem var það næsthæsta í Evrópu á tímabilinu. Tjónahlutfall mælir útgreiðslur vegna tjóna í hlutfalli við iðgjöld. Gústaf segir að á Íslandi hafi að jafnaði ríflega tvær krónur af hverjum tíu sem tryggingafélögin fá í iðgjöld farið í að standa undir rekstri tryggingafélagsins en um átta krónur í að greiða út bætur vegna tjóna sem þýði að iðgjöldin stóðu ekki undir rekstrinum ein og sér.

„Því hafa íslensk tryggingafélög þurft að treysta á betri arðsemi af fjárfestingahluta starfseminnar sem getur eðli málsins samkvæmt verið nokkuð sveiflukennd og ræðst fyrst og fremst af ytri markaðsþáttum. Til að fá betri arðsemi gæti þurft að taka meiri áhættu s.s. með því að hafa meira vægi hlutabréfa í eignasöfnum sínum. Þarna sker Ísland sig einmitt verulega frá öðrum Evrópulöndum en hlutfall hlutabréfa í eignasafni tryggingafélaga á Íslandi er það langhæsta í Evrópu. Í árslok 2023 var hlutfallið 18% á Íslandi en næsthæst í Svíþjóð eða um 6% samkvæmt tölum EIOPA,“ segir Gústaf við Morgunblaðið en sjá má hlutfal hlutabréfa í eignasafni vátryggingafélaga að meðaltali fyrir árin 2016 til 2023 í grafinu hér að neðan.