23,7 milljarðar í sérstaka skatta og gjöld á fjármálastarfsemi

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í Morgunblaðinu um sértæka skatta og gjöld á fjármálastarfsemi samkvæmt nýlega birtu fjárlagafrumvarpi ársins 2026.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að ráðgert sé að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sé ráðgert að sértækir skattar og gjöld á fjármálafyrirtæki og eftirlitsskylda aðila á næst ári muni nema um 23,7 milljörðum króna. Bent er á að fjármálafyrirtæki greiði þrjá skatta sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar og leggjast ofan á laun, skuldir og hagnað fyrirtækjanna. Því til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki og eftirlitsskyldir aðilar sérstök gjöld til að fjármagna rekstur fjármálaeftirlits Seðlabankans og starfsemi Umboðsmanns skuldara.
Heiðrún bendir á í samtali við Morgunblaðið að þessar fjárhæðir séu fyrir utan skatta og gjöld sem íslensk fjármálafyrirtæki greiða líkt og önnur fyrirtæki á borð við almennan tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald og fasteignagjöld.
Heiðrún nefnir einnig í viðtalinu að Ísland hafi gengið mun lengra en löndunum í kringum okkur í sértækri skattlagningu á fjármálastarfsemi. Ekkert hinna Norðurlandanna leggi þrjá sértæka skatta á fjármálafyrirtæki og í Finnlandi séu til að mynda engir sérstakir bankaskattar. Þetta sýni til að mynda nýleg greining Seðlabankans. „Þar kemur fram að skattar sem íslensku bankarnir greiði séu tvöfalt til fjórfalt hærri en að jafnaði innan ríkja Evrópusambandsins sé miðað við áhættuvegnar eignir þeirra,“ segir Heiðrún.
Þá bendir Heiðrún um leið á að upphaflega hafi ein meginröksemdin fyrir hinni sértæku skattlagningu verið að um tímabundna aðgerð væri að ræða til að greiða fyrir kostnað ríkisins tengdu falli og endurreisn bankakerfisins. „Árið 2016 gáfu Ásgeir Jónsson, nú seðlabankastjóri, og Hersir Sigurgeirsson prófessor út rit þar sem áætlað var að ríkið hefði í kjölfar stöðugleikaframlaga slitabúanna í árslok 2015 þegar endurheimt beinan kostnað af falli og endurreisn bankanna. Frá þeim tímapunkti til dagsins í dag hefur ríkið innheimt hátt í 200 milljarða að núvirði í þessa sértæku skatta, þó ein meginröksemd fyrir hinni upphaflegu skattlagningu eigi ekki lengur við.”
Þá sé óvaxtaberandi bindiskylda einnig mun hærri hér á landi en í nágrannaríkjunum, eða 3% samanborið við 1% innan ESB. Aðilar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi litið á óvaxtaberandi bindiskyldu sem ígildi skattlagningar á fjármálastarfsemi.
„Það skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni Íslands að þeir aðilar sem fjármagna atvinnulífið, þar með talið útflutningsgreinarnar, hafi getu til að bjóða samkeppnishæf kjör. Þar keppa innlend fjármálafyrirtæki við mun stærri erlenda aðila sem búa ekki við sömu íþyngjandi kvaðir. Hættan er að það geti fjarað undan samkeppnishæfni okkar á ýmsum sviðum ef við gætum þessa ekki. Þá má geta þess að háværar raddir hafa verið í Evrópu um að álfan sé að regluvæða sig úr samkeppni við aðra heimshluta. Því þarf að líta heildrænt á málið og verja samkeppnishæfni okkar á öllum sviðum,“ segir Heiðrún við Morgunblaðið.