Ýmsar leiðir færar til að efla hlutabréfamarkaðinn

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Nasdaq Iceland stóðu á dögunum að ráðstefnunni Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn í Hörpu þar sem um leið var haldið upp á 40 ára afmæli Kauphallarinnar hér á landi. Hátt í 400 manns sóttu ráðstefnuna þar sem leitast var eftir því að svara því hvar íslenskur hlutabréfamarkaður stendur í alþjóðlegum samanburði og hvað hægt er að læra af nágrannaþjóðum okkar í þeim efnum. Ráðstefnan var einnig í streymi, þar sem á annað þúsund fylgdust með.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, stýrði fundinum og reið Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrstur á vaðið með ávarp.
Í ávarpi sínu ræddi Daði meðal annars um áform ríkisstjórnarinnar um að afnema skattskyldu á hlutabréfahagnað erlendra aðila. Þá kom fram í máli ráðherrans að til skoðunar væri hvernig stuðla mætti að aukinni fjárfestingu almennings. Hann nefndi hugmynd um að lengja hámarkstíma sem jafna má tap af sölu eins hlutabréfs á móti tekjum af sölu annars. Daði vék einnig að hugmyndum um að farið yrði að fordæmi Breta og heimildir einstaklinga til skattfrjálsra fjárfestinga í hlutabréfum yrðu rýmkaðar. Í ávarpi ráðherrans kom einnig skýrt fram að fjárfesting í atvinnurekstri er undirstaða velmegunar og það þurfi að gera meira til þess að fjölga fjárfestum, skráðum félögum og auka þátttöku erlendra aðila á hlutabréfamörkuðum og í fjárfestingum hérlendis.
Í kjölfarið steig Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á svið og hélt erindi undir yfirskriftinni Mikilvægi markaðsfjármögnunar. Í erindi sínu vísaði Ásgeir meðal annars á tillögur sem snúa að lífeyrissparnaði sem komu fram í umræðuskýrslu Seðlabankans um umsvif lífeyrissjóða á fjármálamarkaði fyrir ári síðan. Þær felast í því að auka frelsi einstaklinga við ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar, endurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða með það að markmiði að skynsemisregla leysi af hólmi magnbundnar takmarkanir og rýmri heimildir lífeyrissjóða til afleiðuviðskipta og verðbréfalána að erlendri fyrirmynd. Ásgeir vísaði einnig til tillögu um að lífeyrissjóðir beindu fjárfestingum í auknum mæli í sérstaka sjóði með skýrt stjórnunarlegt sjálfstæði og armslengd frá bæði stjórn og framkvæmdastjórn viðkomandi lífeyrissjóðs.
Þá lagði Ásgeir áherslu á að fá erlent fjármagn til landsins til þess að tryggja samkeppni og fjölbreytni á fjármálamarkaði. Hann sagði heppilegt að erlendu fjármagni væri miðlað um fjármálamarkaðinn frekar en efnahagsreikninga fjármálastofnana, og þá helst sem fjárfesting í skuldabréfum eða hlutafé íslenskra félaga. Þannig tækju erlendir aðilar á sig gengisáhættu, auk þess sem bein erlend fjárfesting fæli í sér þjóðhagslega áhættudreifingu fyrir landið sem fjárfest er í.
Adam Kostyál, forstjóri Nasdaq Stockholm og framkvæmdastjóri Nasdaq í Evrópu, fjallaði um reynslu Svía af því að byggja upp hlutabréfamarkað á heimsmælikvarða og mikilvægi þess að fjármálamarkaðurinn virki vel. Hann ræddi einnig um mikilvægi virkrar þátttöku einstaklinga og þess að samræma betur túlkun evrópskra regla og bæta tengingar milli markaða og gaf Íslendingum nokkur heilræði um hvernig efla megi íslenskan hlutabréfamarkað.
Í fyrri pallborðsumræðum ráðstefnunnar ræddu Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Tanya Zharov lögfræðingur og Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, um leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn en Íris Björk Hreinsdóttir, yfirlögfræðingur SFF, stýrði umræðum.
Eftir kaffihlé hélt Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, erindi um stöðu hlutabréfamarkaðarins í alþjóðlegum samanburði, mikilvægi lífeyrissjóða fyrir markaðinn en á sama tíma þörfina fyrir fjölbreyttan hóp fjárfesta á markaðnum. Þá fjallaði Magnús einnig um skilyrði sem Ísland þarf að uppfylla til að hækka í flokkun hjá vísitölum MSCI og FTSE.
Því næst kynnti Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, niðurstöður Gallup-könnunar um sparnaðar- og fjárfestingahegðun Íslendinga. Frá árinu 2007 hefur Gallup árlega lagt fyrir spurningu um hvort fólk leggi reglulega fyrir sparifé. Síðan þá hafa aldrei fleiri sagst spara reglulega en árið 2025, eða 69%. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt síðan 2013. Þá leiddi könnunin í ljós að almenningur hefur ekki verið jákvæðari gagnvart hlutabréfakaupum frá 2007, en einnig að helstu ástæður sem fólk nefnir fyrir því að kaupa ekki hlutabréf eru fjárskortur og að því finnist slíkar fjárfestingar of flóknar. Könnunin leiddi einnig í ljós að 28,2% eiga innlend hlutabréf eða í innlendum sjóðum, á meðan 8,1% eiga erlend bréf eða í erlendum sjóðum. Það er litlu minna en þau 7,4% sem eiga rafmynt eða í rafmyntasjóðum. Tæp 66% eiga hins vegar hvorki verðbréf né rafmyntir.
Síðasti framsögumaður ráðstefnunnar var Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka. Hann fjallaði um fjárfestinga- og sparnaðarreikninga fyrir einstaklinga og hlutverk þeirra í að virkja sparnað. Í máli sínu lagði Hafsteinn áherslu á að til þess að virkja sparnað Íslendinga með fjárfestingareikningum þyrfti einkum þrennt að koma til: Skattalegt hagræði, sveigjanleiki og einfaldleiki fjárfestingareikninga.
Botninn var sleginn í ráðstefnuna með pallborðsumræðum þar sem Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfesta og fyrirtækja hjá Íslandsbanka og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, ræddu meðal annars um hvort almenningur væri lykillinn að virkari hlutabréfamarkaði en Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður á mörkuðum hjá Arion banka stýrði umræðum.
SFF þakka öllum sem komu að ráðstefnunni kærlega fyrir samstarfið, gestum fyrir komuna og óska Kauphöllinni til hamingju með 40 ára afmælið.










.jpg)


.jpg)

