Fjármálalæsi hefur bein áhrif á lífskjör

Einungis tæplega einn af hverjum þremur landsmanna á hlutabréf eða skuldabréf, beint eða í gegnum verðbréfasjóði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Gallup sem unnin var fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF). Könnunin var kynnt á ráðstefnunni „Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn“ sem SFF og Nasdaq Iceland stóðu fyrir þann 6. nóvemer síðastliðinn.

Þekkingarskortur mun oftar nefnt sem hindrun hér á landi en í Evrópu

Í sömu könnun var spurt um ástæður þess að fólk á ekki verðbréf. Þegar kemur að helstu ástæðu þess eru Íslendingar lítið frábrugðnir öðrum Evrópuþjóðum, en 48% aðspurðra báru við að eiga ekki nægjanlegt fé til fjárfestinga. Ef við skoðum hins vegar aðra veigamikla ástæðu kemur áhugaverður samanburður við Evrópu í ljós. Um þriðjungur svarenda hér á landi segir ástæðuna vera þá að hann kunni ekki að fjárfesta eða finnist það of flókið. Þetta er hærra hlutfall en í öllum ríkjum Evrópusambandsins þar sem meðaltalið var helmingi lægra eða 16%.

Yngra fólk telur sig síður hafa næga þekkingu til að fjárfesta

Ef skoðaðar eru bakgrunnsbreytur sjáum við að almennt gildir að eftir því sem fólk er yngra þeim mun líklegra er að það setji fyrir sig skort á þekkingu eða flækjustig sem hindrun í verðbréfafjárfestingum. Þannig gefa 63% í aldurshópnum 18-29 ára þetta svar og er það nefnt oftar en skortur á fjármunum. Í flokknum 30-39 ára er skortur á þekkingu eða flækjustigið nefnt sem hindrun hjá 47% aðspurðra, 39% hjá 40-49 ára og svo á bilinu 18-20% í eldri hópum.

Konur eru almennt séð líklegri en karlar að setja fyrir sig skort á þekkingu eða flækjustig þegar kemur að verðbréfafjárfestingum. Karlar eiga jafnframt frekar hlutabréf en konur samkvæmt könnuninni sem skýrist þá að einhverju leyti af þessum mun í mati á eigin þekkingu. Rannsóknir erlendis hafa sýnt að konur eru almennt séð áhættufælnari en karlar í fjárfestingum. Hins vegar leiddi könnunin einnig í ljós að kynin eru álíka líkleg að leggja reglulega fyrir sparifé eða um 70% landsmanna.

Takmarkað fjármálalæsi hefur neikvæð áhrif á lífskjör

Það er bagalegt að skortur á þekkingu haldi einhverjum frá verðbréfafjárfestingu. Bæði fyrir þann sem fjárfestir og lífskjör í landinu. Það er alþekkt að mikilvægt er að hefja sparnað snemma á lífsleiðinni enda geta áhrif vaxtavaxta verið töluverð til nokkurra áratuga jafnvel þó að árleg ávöxtun sé ekki endilega há. Ef yngra fólk fer ekki inn á markaðinn vegna þekkingarskorts missir það því af slíkum tækifærum. Fjárfesting í atvinnulífinu er einnig hornsteinn þess að viðhalda og bæta lífskjör í hverju landi og hefur þekkingarskortur því þarna einnig bein neikvæð áhrif á lífskjör.

Fjármálalæsi verði gert að skyldu í grunnskólum landsins

SFF hefur lengi haldið á lofti mikilvægi þess að efla fjármálalæsi hér á landi enda segja 90% landsmanna að þeir hefðu viljað læra meira um fjármál í grunnskóla. Það verður sífellt flóknara að fóta sig í þeim aragrúa möguleika sem bjóðast almenningi í fjárfestingakostum og lánamöguleikum. Mikilvægi fjármálalæsiskennslu fer því bara vaxandi, enda þarf almenningur að vita og skilja hvað hann er að gera svo hann geti tekið upplýstar ákvarðanir á sviði fjárfestinga. SFF skiluðu nýverið umsögn um stefnu stjórnvalda í neytendamálum, þar sem samtökin leggja áherslu á mikilvægi fjármálalæsis og hvetja stjórnvöld til þess að ganga ennþá lengra í þeim efnum með því að setja sér stefnu á landsvísu um hvernig efla megi fjármálalæsi hér á landi, í samræmi við leiðbeiningar OECD til sinna aðildarríkja.

Neikvæð áhrif þekkingarskorts á verðbréfafjárfestingu er enn ein staðfesting á mikilvægi þess að efla fjármálalæsi hér á landi með því að gera það að skyldunámi í grunnskólum  og sett verið landsstefna um eflingu fjármálalæsis.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 22. nóvember.