Öflug fjármálaþjónusta er forsenda bættra lífskjara og aukinnar framleiðni

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa skilað umsögn um drög að atvinnustefnu til ársins 2035 í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. SFF leggja áherslu á að fjármálaþjónustumarkaður er mikilvægur og nauðsynlegur hlekkur í atvinnulífinu. SFF telja að rými sé til þess að veita þessari mikilvægu stoð atvinnulífsins meira vægi í stefnunni. Ábendingar samtakanna lúta einkum að umgjörð um fjármálaþjónustu og með hvaða hætti fjármálaþjónusta getur stutt við markmið stjórnvalda.

  • SFF undirstrika að öflug, samkeppnishæf fjármálaþjónusta og skilvirk miðlun fjármagns séu lykilforsendur þess að atvinnustefnan nái markmiðum um aukna framleiðni, verðmætasköpun og vel launuð störf. Samtökin hvetja til þess að á hverjum tíma sé hugað að samkeppnishæfni og starfsskilyrðum innlendrar fjármálaþjónustu með tilliti til þess að álögur á hana séu ekki meiri en gengur og gerist annars staðar.
  • Brýnt er að innleiðing EES-regluverks sé vönduð, tímanleg og vel kynnt, auk þess að fylgst sé með alþjóðlegri þróun og talað skýrt fyrir hagsmunum Íslands.
  • SFF styðja einföldun og stafræn umbótaverkefni í opinberri stjórnsýslu og hvetja til þess að ávinningur þeirra skili sér til heimila og fyrirtækja, m.a. með lagabreytingum er snýr að rafrænum skuldaviðurkenningum.
  • SFF leggja áherslu á að menntakerfið stuðli sem best að því að skapa þá fjölbreyttu sérfræðiþekkingu sem vaxandi atvinnustarfsemi mun kalla eftir á hverjum tíma.

Benda SFF á að mikilvægt sé að efla hlutabréfamarkaðinn og erlenda fjárfestingu hér á landi. SFF hafa m.a. í umsögnum um lagafrumvörp talað með jákvæðum hætti um eflingu erlendrar fjárfestingar hérlendis.

Þá benda SFF á umfjöllun á ráðstefnunni „Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn“ sem samtökin héldu ásamt Nasdaq í nóvember. Á ráðstefnunni var samhljómur um mikilvægi erlendra fjárfestinga og mikilvægi öflugs hlutabréfamarkaðs. Eftirfarandi var nefnt í dæmaskyni yfir leiðir sem fram komu á ráðstefnunni.

  • Einstaklingar njóti skattaívilnunar vegna hlutabréfakaupa.
  • Einstaklingum verði leyft að fjárfesta hluta af viðbótarlífeyrissparnaði sínum.
  • Teknir verði upp fjárfestingarreikningar að erlendri fyrirmynd - reikningar verði sveigjanlegir og einfaldir og þeim fylgi skattalegt hagræði.
  • Arðgreiðslur geti farið fram oftar, t.d. fjórum sinnum á ári.
  • Magnbundnar takmarkanir á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða verði afnumdar.
  • Fjármálalæsi verði bætt – Það styður við aukna þátttöku almennings á markaðnum.
  • Skattskylda á hagnaði erlendra aðila af hlutabréfum verði afnumin.

SFF bentu jafnframt á að huga þarf að umgjörð um innlenda fjármálastarfsemi. Þrátt fyrir að erlendar fjárfestingar og fjárfestingar í atvinnuvegum hafi verið í brennidepli að undanförnu verður að hafa í huga að innlend fjármálastarfsemi er ekki síður mikilvæg. Telja verður að ekki hafi verið lögð næg áhersla á að efla innlendan fjármálamarkað og þá umgjörð sem fjármálastarfsemi er búin hér á landi. Mikilvægt er að horfa til þess að innlendur fjármálamarkaður sé samkeppnishæfur þegar kemur að þeim löndum sem við berum okkur saman við.

SFF leggja áfram áherslu á mikilvægi innlendrar fjármálastarfsemi og benda m.a. á að öflug, samkeppnishæf fjármálaþjónusta og skilvirk miðlun fjármagns séu lykilforsendur þess að markmiðum atvinnustefnunnar um aukna framleiðni, verðmætasköpun og vel launuð störf verði náð. Íslensk fjármálafyrirtæki skapa verðmæt og vel launuð störf, bæði beint, í tilfelli starfsmanna þeirra, og óbeint með því að sinna þörfum íslensks atvinnulífs, en hvers kyns álögur á fjármálamarkaði draga úr svigrúmi til áframhaldandi sköpunar slíkra starfa.

SFF fagna markmiðum um einföldun regluverks í atvinnustefnunni, stöðugu fyrirsjáanlegu og samkeppnishæfi rekstrarumhverfi, stafræna stjórnsýslu og að fjarlægja eigi óþarfa hindranir fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja og efla þannig samkeppnishæfni þeirra. Samtökin styðja því áframhaldandi einföldun og stafræn umbótaverkefni í opinberri stjórnsýslu og hvetja til þess að ávinningur þeirra skili sér til heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að gæta þess að fjármálamarkaður verði ekki eftir í stafvæðingu stjórnalda, enda hefur fjármálamarkaður hérlendis verið drifkraftur í stafrænni þjónustu um árabil. Mikilvægt er að stuðla að umbótum sem ná einnig til atvinnulífsins og nefna má sérstaklega mikilvæga breytingu á löggjöf er snýr að rafrænum skuldaviðurkenningum.

SFF hefur í nokkurn tíma talað fyrir því að mikilvægt sé að útrýma íþyngjandi gullhúðun/blýhúðun Evrópureglna og séríslenskum lagaákvæðum um fjármálastarfsemi og leggja áfram áherslu á það í umsögninni.

Að lokum ítreka samtökin í umsögn sinni áherslu á að menntakerfið stuðli sem best að sköpun fjölbreyttrar sérfræðiþekkingar, enda eykst þörf fyrir slíka þekkingu samhliða vaxandi atvinnustarfsemi. Þá verði kennsla í fjármálalæsi hluti af skyldunámi. Ekkert barn á að fara út í lífið án grundvallarþekkingar á fjármálum. Með þeim hætti jöfnum við tækifæri allra barna burtséð frá baklandi og búsetu til að byggja upp heilbrigðan fjárhag.

Gangi þetta eftir eru allar forsendur fyrir því að innlend fjármálaþjónusta geti áfram stuðlað að bættum lífskjörum og aukinni framleiðni hér á landi.

Samtökin lýsa sig reiðubúin til frekara samtals við stjórnvöld um málið, aðkomu að útfærslu og tillögum þeim er hér hafa verið nefndar.

Umsögn SFF um málið í heild sinni má sjá hér.

Málið á síðu Samráðsgáttar má sjá hér.