Forgangsatriði að lækka verðbólgu og vexti

Þrátt fyrir að spenna og óveðursský hrannist upp í heimsmálum, hvort sem við horfum til Evrópu, Asíu eða Ameríku, þá erum við hér á Íslandi um margt í öfundsverðri stöðu. Vissulega erum við að berjast við forna fjendur, þráláta verðbólgu og vaxtastig en það er þó að einhverju marki heimatilbúinn vandi. Við höfum áður náð árangri í þeirri baráttu með samstilltu átaki.
Eitt af því sem við þurfum að leggja höfuðáherslu á er samkeppnishæfni Íslands. Í dag erum við með Evrópumet í sköttum og álögum á fjármálakerfið. Við erum með þrjá mismunandi skatta, sérstaklega hannaða til að skattleggja fjármálakerfið, sem aðrar atvinnugreinar greiða ekki og á meðan löndin í kringum okkur eru með færri skatta. Þá erum við með hærri eiginfjárkröfur sem og 3 prósent vaxtalausa bindiskyldu á meðan hún er 1 prósent víðast hvar í kringum okkur. Þetta hljómar kannski sakleysislega en samanlagt eru þetta yfir 21 milljarður sem íslensk fjármálafyrirtæki greiddu í sértæka skatta og gjöld á síðasta ári, álögur sem ekki eru lagðar á aðrar atvinnugreinar.
Verði rétt haldið á spilunum gagnvart fjármálamarkaði getur öflug fjármálastarfsemi stutt við fyrirtækin og heimilin í landinu og stuðlað að áframhaldandi hagsæld og góðum lífskjörum hér á landi.
Jöfnum stöðu og möguleika ungmenna
Það hvarflar ekki að okkur að senda börn út í umferðina án þess að kenna þeim umferðarreglurnar. Á sama hátt verðum við að tryggja að ungmennin okkar fari ekki út í lífið án þess að hafa grundvallarþekkingu í fjármálalæsi. SFF hafa barist fyrir því að fjármálalæsi verði gert að skyldufagi í öllum grunnskólum landsins. Við höfum síðustu ár gefið um 21 þúsund bækur til kennara og nemenda auk þess að styðja kennara í kennslu, þeirra sem þess óska. Í dag er fjármálalæsi skylda í sumum skólum, valfag í öðrum, en ekki kennt í mörgum skólum.
Um 90 prósent aðspurðra ungmenna í könnun Gallup sögðust hafa viljað læra meira um fjármál í grunnskóla. Um 10 prósent sögðust hafa lært um fjármál í grunnskóla en 74 prósent sögðu að það ætti að vera kennt í grunnskóla. Þá er afar mikilvægt að börn læri ekki um fjármál eingöngu á netinu þar sem það getur leitt þau til svikahrappa og rangra ákvarðana.
Um helmingur lærir um fjármál á heimilum. En hvað með börnin sem hafa ekki þann bakgrunn heima fyrir að fá leiðsögn og stuðning og hafa ekki tækifæri til að læra um fjármál í skóla? Eina leiðin til að jafna stöðu allra ungmenna er snýr að því að byggja upp heilbrigðan fjárhag er að gera fjármál að skyldufagi í grunnskóla.
Greinin birtist fyrst í janúarblaði Heimildarinnar.




%20(300%20x%20200%20px)%20(2).jpg)










