Yfir 21 milljarður króna í sértækar álögur

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, ræddi við Morgunblaðið á dögunum um sértæka skatta og gjöld sem íslensk fjármálafyrirtæki greiddu á síðasta ári, en öðrum atvinnugreinum er ekki gert að greiða. Upphæð þessara sértæku álaga fór í fyrsta sinn yfir 20 milljarða króna árið 2024.
Greiða 21,1 milljarð
Samkvæmt nýútgefnu yfirliti um álagningu opinberra gjalda hjá Skattinum greiddu íslensk fjármálafyrirtæki 17,7 milljarða króna í sértæka skatta á síðasta ári. Um er að ræða skatta sem annar atvinnurekstur í landinu greiðir ekki. Þessi upphæð hefur ekki áður mælst hærri, en hún nam 17 milljörðum króna árið þar á undan. Fjármálafyrirtæki greiða einnig árlega eftirlitsgjöld vegna starfsemi Fjármálaeftirlitsins og nam sú upphæð 3,1 milljarði króna á síðasta ári. Þessu til viðbótar standa fjármálafyrirtækin straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara, sem nemur um 300 milljónum króna til viðbótar. Samtals nema þessar greiðslur því um 21,1 milljarði króna.
Vafasamt skattamet
Í samtali sínu við Morgunblaðið benti Heiðrún á að Ísland væri eina ríkið í hópi Norðurlanda með þrjá sértæka skatta á fjármálafyrirtæki. Það eru bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Í Svíþjóð greiða fjármálafyrirtæki einn sértækan skatt, engan í Finnlandi en tvo í Danmörku og Noregi.
Heiðrún benti einnig á að í skýrslu sem Intellecon vann fyrir SFF á síðasta ári hafi komið fram að skattarnir séu langhæstir hér á landi, í samanburði við önnur Evrópulönd, þegar litið er til skattanna sem hlutfalls af áhættuvegnum eignum. Þá sýni nýleg greining Seðlabankans að skattar sem íslenskir bankar greiði séu tvöfalt til fjórfalt hærri en að jafnaði innan ríkja Evrópusambandsins, sé litið til áhættuveginna eigna þeirra.
„Þetta sýnir hversu þung skattbyrðin er hér á landi“ sagði Heiðrún við Morgunblaðið.
Gert ráð fyrir enn frekari hækkun á næsta ári
Í hvítbók starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 kom fram að sértækar álögur á íslenskar lánastofnanir væru hluti af svokölluðu „Íslandsálagi“, sem auki vaxtamun í lánastarfsemi hér á landi. Þar kom einnig fram að lækkun sértækra skatta væri skýrasta tækifæri ríkisvaldsins til að draga úr vaxtamun.
Þrátt fyrir það er ekki útlit fyrir að álögurnar sem til umfjöllunar eru verði lækkaðar svo nokkru nemi. Nýjasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að sértækar skattgreiðslur og eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins muni nema 23,7 milljörðum króna á næsta ári.
Íslenskur almenningur er aðaleigandi bankanna
Heiðrún bendir á að þegar rætt er um álögur á íslenska banka verði að hafa eignarhald þeirra í huga. Eigendur bankanna séu fyrst og fremst íslenskur almenningur, í beinum og óbeinum skilningi. Landsbankinn er nánast alfarið í eigu íslensks almennings í gegnum eignarhald ríkissjóðs, sem heldur á 98,2% eignarhlut í bankanum. Þá var langstærstur hluti Íslandsbanka keyptur af lífeyrissjóðum og einstaklingum þegar ríkið seldi hlut sinn í bankanum.
Fyrir sölu ríkisins á hlut Íslandsbanka átti almenningur um þrjá fjórðu hluta af heildarhlutafé í stóru bönkunum þremur, beint eða óbeint, og hafði sala ríkisins því lítil áhrif á þetta hlutfall.
Fjármálafyrirtækin greiða um 26% af tekjuskatti lögaðila
Morgunblaðið fjallar einnig um þá staðreynd að fjármálafyrirtæki hafi greitt 26,1 prósent af tekjuskatti sem lagður var á lögaðila á síðasta ári. Fjármálageirinni hafi því, líkt og síðustu ár, verið sá geiri atvinnulífsins sem mest greiddi.
Þar á eftir koma rafmagns-, gas- og hitaveitur, sem greiddu 11,2% af heildartekjuskatti lögaðila. Byggingarstarfsemi mannvirkjagerð komu þar næst á eftir með 10,3%. Hlutfall tekjuskatta sem fjármálafyrirtækin greiddu hefur ekki verið jafn hátt undanfarin ár. Hlutfallið var 24,4% árið 2023 en var á milli 21,6 og 23,8% á árunum 2018 til 2022.
%20(300%20x%20200%20px)%20(2).jpg)















.jpg)
