Hollráð gegn svikum á netinu

Það verður stöðugt erfiðara fyrir almenning á greina á milli þess hvort verið sé að reyna svíkja það eða ekki í hinum stafræna heimi. Sú staðreynd kallar einfaldlega á að fólk þarf að vera betur upplýst um allar þær leiðir og þau sálfræðilegu trikk sem svikarar reyna að beita til þess að hafa af þeim fé. Nú í nóvember fer í gang langstærsti netverslunarmánuður ársins og þá er gott að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart svikum.

Hæfileg tortryggni og gagnrýnin hugsun eru öflug vopn gegn svikum

Það eru ekki mörg almenn atriði sem þarf að hafa í huga til þess að lágmarka líkur á fjárhagslegum skaða. Almenn tortryggni er ekki talin félagsleg dyggð en hún getur komið sér sérstaklega vel í hinum stafræna heimi. Gagnrýnin hugsun eins og vangaveltur um hvort að tilboð séu of góð til að vera sönn er einnig gott vopn í baráttunni. Ef þú ert í vafa leysir það mjög oft málið að hringja til þess að fá hlutina staðfesta. Það skiptir líka miklu máli að flýta sér hægt því oft verða slys í fljótfærni eða þegar fólk er að flýta sér. Sumir svikarar gera einfaldlega út á setja fólk í tímapressu því þá er líklegra að bitið verði á agnið. Þeir gera það t.d. með því að búa til sýndartilboð sem er að renna út eftir nokkrar mínútur eða biðja þig um greiðslu sem þarf að inna af hendi strax.

Nokkur almenn atriði til þess að lágmarka líkur á fjárhagslegum skaða

1.     Það er mikilvægt að flýta sér mjög hægt þegar við erum að sýsla með stafrænum hætti um rafræn skilríki og persónulega upplýsingar eins og kortanúmer eða fjármuni.

2.     Ef eitthvað er peningalega of gott til að vera satt er það yfirleitt ekki satt! Það að staldra aðeins við og beita gagnrýnni hugsun getur komið í veg fyrir að lenda í gildrum. Hafðu sérstakan vara á þér ef þér bjóðast fjármunir úr óþekktri átt eða mjög miklir afslættir á vörukaupum.

3.     Ekki opna viðhengi, smella á hlekki eða hlaða niður hugbúnaði nema kanna hvort að sendingin komi frá traustum sendanda. Hér er oft hægt að nota sér umsagnarsíður á netinu fyrir svikahlekki. Hvað varðar svikahugbúnað þá getur verið erfiðara að greina slíkt og þá þarf að reiða sig meira á vírusvarnir. Best er að kanna áreiðanleika sendanda til að fullvissa þig um að svikarar séu ekki að baki. Það er oft hægt að gera með því að hringja og þá sérstaklega þegar um að ræða fyrirtæki eða stofnanir sem þú þekkir eða hefur áður átt viðskipti við.

4.     Vertu alltaf á varðbergi gagnvart innskráningarbeiðnum með rafrænum skilríkjum. Rafrænuskilríkin þín eru ígildi peningaveskis og þú myndir ekki afhenda einhverjum ókunnugum peningaveski þitt. Ef þú ert að nota rafræn skilríki vertu vel meðvitaður um hvað þú ert að gera og að tölurnar í símanum stemmi við tölurnar á netinu. Gott er að hafa í huga að ef þú staðfestir eitthvað með rafrænum skilríkjum er færslan óafturkræf.

5.     Aldrei gefa annarri manneskju upp notandanafn og lykilorð eða leyninúmer á reikningnum þínum.

6.     Aldrei gefa upp kortaupplýsingar eins og kortanúmer, gildistíma og CVV númer á samfélagsmiðlum, í símtali, í tölvupósti eða gegnum SMS óháð því hvort þú treystir viðkomandi eða ekki. Það er á ábyrgð korthafa að varðveita sína persónubundnu öryggisþætti og ekki lána þá. Greiðslukortaupplýsingar skal einungis gefa upp á traustum greiðslusíðum og öruggri greiðslugátt. Stundum biðja seljendur eins og hótel eða bílaleigur um greiðslukort í síma eða á staðnum og þá ber að gæta ýtrustu varúðar við afhendingu slíkra upplýsinga. Í þeim tilfellum þar sem hringt er í þig biddu þá um að fá að hringja til baka til þess að vera viss um að vera tala við starfsmann fyrirtækisins.  

7.     Ef þú færð tölvupóst, SMS eða símtal frá einhverjum með greiðslufyrirmæli er æskilegt að hafa samband við viðkomandi einstakling, fyrirtæki eða stofnun með símtali til að athuga hvort að greiðslan eigi í raun rétt á sér. Láttu aldrei undan þrýstingi og sérstaklega ef þú ert beðinn um framkvæma eitthvað strax. Eðlilegar greiðslur eru mjög sjaldan þess eðlis að framkvæma þurfi þær strax.

Svikatilraunir í gegnum netverslun

Glæpamenn nota ýmsar leiðir til þess að stela peningum af fólki þegar það heldur að það sé að kaupa ósvikna vöru eða þjónustu á netinu. Svikahrappar nota t.d. vefsíðuafritunartó lsem afrita raunverulegar síður þannig að fórnarlambið telur sig vera á ósviknu heimasíðunni. Lén á svikasíðum eru aldrei nákvæmlega þau sömu en yfirleitt mjög lík ósviknu síðunni og geta þau t.d. endað á .shop eða annarri endingu en þessar hefðbundnu eins og .is og .com. Oft eru brotaþolar lokkaðir með auglýsingum á samfélagsmiðlum og síðan eru verðin yfirleitt mjög hagstæð og jákvæðar og falskar umsagnir um vöruna til að byggja upp traust. Ef svikahrappar fá fólk til að gefa upp kortanúmer þá geta þeir stolið umtalsverðum upphæðum af fólki, sérstaklega ef fólk áttar sig ekki fljótlega á því að það hefur verið svikið.  

Hollráð í netverslun

1.     Ef tilboð eru of góð til að vera sönn eru þau langoftast svik.

2.     Gerðu bakgrunnsskoðun á seljandanum áður en þú kaupir. Leitaðu að meðmælum og skoðað uhvort að kvartað hafi verið gagnvart viðskiptaháttum viðkomandi fyrirtækis.

3.     Hafðu varann á þér gagnvart tilboði um fjárfestingarmöguleika, gefins peninga eða lán sem þér stendur til boða án þess að hafa sóst eftir því.

4.     Þú skalt hafa sérstakan vara á þér ef um er að ræða tímabundið tilboð sem er að fara að renna út því oftast nær eru svikarar þar á bak við.

5.     Þú getur ekki treyst því að tilboð sem eru á samfélagsmiðlum eins og Facebook séu sönn. Það er því mikilvægt að grenslast fyrir um hvort heiðarlegt fyrirtæki liggi að baki.

Svik sem reynd eru í gegnum síma, SMS og netpóst

Aðferðir svikara við að svíkja fólk í gegnum símtöl, SMS eða netpóst verða stöðugt öflugri. Svikarar geta t.d. auðveldlega villt á sér heimildir í dag með því að hringja eða senda SMS úr símanúmeri sem þú þekkir, t.d. frá maka, vini eða yfirmanni. Gervigreindin hefur meira að segja hjálpað svikurum að líkja eftir rödd fólks sem þú þekkir og heldur að þú sért að tala við. Þetta á þó bara við ef svikahrappar hringja í þig. Ef þú hringir sjálfur í símanúmer geturðu verið viss um að þú sért að tala við viðkomandi. Svikarar ná stundum að brjótast inní póstkerfi og senda póst frá netfangi sem þú þekkir eða treystir. Ef þú ert beðinn um upplýsingar eða millifærslur í netpósti eða SMS skaltu hringja í viðkomandi til að taka af allan vafa. Mikilvægt er að hafa sérstakan vara á þér ef þú ert beðinn um að setja upp forrit í tölvunni þinni. Svikahrappar biðja einstaklinga oft um að setja upp yfirtökuforrit líkt og AnyDesk, Iperious Remote og Teamviewer í þeim tilgangi til að ná stjórn á þínu tæki.

Hollráð varðandi símtala-, SMS- eða svik með netpósti

1.     Hafðu sérstakan vara á þér gagnvart númerum sem þú þekkir ekki og sérstaklega gagnvart erlendum símanúmerum sem þú þekkir ekki. Þú getur einnig valið að svara ekki símanúmerum sem þú þekkir ekki. Ef þú svarar vertu þá á varðbergi ef þú ert beðinn um einhverjar persónulegar upplýsingar.

2.     Mörg SMS skilaboð þarfnast sérstakrar varúðar. Ef þú færð slík skilaboð frá stofnunum eða fyrirtækjum eins og Skattinum, Lögreglunni eða Póstinum er best að grennslast nánar um það með því að hringja í viðkomandi og ganga úr skugga um að svikarar séu ekki þarna að baki. Svikarar hafa verið að villa á sér heimildir með því að nota þekktar stofnanir hér á landi til þess að svíkja fólk.

3.     Ekki smella á hlekki sem koma úr símanúmerum sem þú þekkir ekki. Ef þú þekkir númerið er lang öruggast að hringja í viðkomandi aðila til þess að fá staðfest að ekki sé um svik að ræða.