Netsvik í brennidepli í nóvember

Í nóvember stóðu SFF fyrir umfangsmikilli vitundarvakningu, til þess að vekja athygli fólks á hættunni á netsvikum, sem er sérlega mikil á tilboðsdögum netverslana í nóvember og á aðventunni.

Tæknin og aðferðir sífellt betri

Það verður stöðugt erfiðara fyrir fólk að greina á milli þess hvort verið sé að reyna svíkja það eða ekki í hinum stafræna heimi. Aðferðirnar verða sífellt trúverðugri og tæknin þróaðri og með aðstoð sífellt betri gervigreindar verður íslenskan einnig betri. Sú staðreynd kallar á að fólk þarf að vera betur upplýst um þær leiðir og þau sálfræðilegu brögð sem svikarar reyna að beita til þess að hafa af þeim fé.

Netsvikapróf

Af þessu tilefni setti SFF sérstakt netsvikapróf í loftið, þar sem fólk getur metið þekkingu sína á algengum og sífellt þróaðri aðferðum svikahrappa við að hafa fé af fólki í gegnum netið. Að sama skapi birtu SFF gagnlegan lista heilræða yfir hvernig má verjast svikum.

Greinar og viðtöl

Líkt og áður sagði er nóvember sá tími þar sem nauðsynlegt er að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart svikum, líkt og Íris Björk Hreinsdóttir, yfirlögfræðingur SFF og Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur SFF, fjölluðu um í greinum sínum á Vísi.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, ræddi svikamálin í tveimur útvarpsviðtölum, annars vegar á Rás 2 og hins vegar á Bylgjunni.

Vikublaðið birti einnig tvær greinar eftir Heiðrúnu og Véstein Örn Pétursson sérfræðing SFF, um hætturnar sem fylgja netsvikum, og góð ráð til þess að koma auga á og verjast svikum. Þar lögðu þau áherslu á að heilbrigð tortryggni og gagnrýnin hugsun væru bestu vopnin gegn svikatilraunum á netinu.

SFF vona að sem flestir séu meðvitaðir um hættuna á netsvikum og þær aðferðir sem netsvikarar beita. Samtökin hvetja fólk til að vera alltaf á varðbergi, hvort sem er á netdögum, á aðventunni eða aðra daga. Svikahrapparnir fara jú aldrei í frí.