Kraftmeiri sparnaður í seilingarfjarlægð

Íslendingar eru duglegir að spara og hafa aukið sparnað sinn verulega í seinni tíð. Innlán hafa vaxið hratt á undanförnum árum, og íslensk heimili eiga nú um 1.800 milljarða inni á bankareikningum. Þá er ekki horft til lífeyrissparnaðar og séreignalífeyrissjóða. Leiðir til sparnaðar hérlendis eru nokkuð einsleitar. Það þarf þó ekki mikið til að koma þannig að íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf geti í sameiningu leyst úr læðingi þann mikla kraft sem sparnaður hefur að geyma.
Þegar hugur Íslendinga til hlutabréfakaupa var kannaður í lok síðasta árs sást að áhuginn og forvitnin eru til staðar, og að hann er meiri en í flestum ríkjum Evrópu. Af þeim sem ekki hafa átt hlutabréf nefna 37% sem ástæðu þess, að þau telji sig skorta þekkingu til að fjárfesta, eða finnist það of flókið. Engu að síður sýnir reynslan af vel heppnuðum hlutafjárútboðum síðustu ára að almenningur hefur áhuga á hlutabréfaviðskiptum og þátttöku á markaðnum.
Þarf þetta að vera svona?
Almenningur hefur sýnt að hann hefur bæði vilja og getu til að spara. Það sem væri til bóta er skýr og aðgengileg leið til að færa hluta sparnaðar yfir í fjölbreyttari sparnaðar- og fjárfestingaleiðir. Einfaldar leiðir sem almenningur getur treyst og hafa fjárhagslega hvata, til dæmis í formi skattaafsláttar.
Í þessu samhengi hafa Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu bent á, m.a. í umsögnum um lagafrumvörp og stefnur stjórnvalda, að nauðsynlegt sé að huga markvisst að umgjörð innlendrar fjármálastarfsemi. Afar mikilvægt er að Ísland sé samkeppnishæft við okkar helstu samanburðarlönd. Þótt erlendar fjárfestingar og fjárfestingar í tilteknum atvinnugreinum hafi verið í brennidepli í umræðunni að undanförnu má ekki horfa fram hjá því að innlend fjármálastarfsemi er ekki síður mikilvæg. Mikilvægt er að efla innlendan fjármálamarkað og þá umgjörð sem fjármálastarfsemi býr við hér á landi.
Það verður að vera forgangsatriði á hverjum tíma, að tryggja að innlendur fjármálamarkaður sé samkeppnishæfur í samanburði við þau lönd sem Ísland ber sig helst saman við. Þannig aukum við samkeppnishæfni útflutningsgreinanna og styrkjum stoðir efnahags landsins.
Þurfum ekki að finna upp hjólið, lærum af þeim bestu
Þegar horft er út fyrir landsteinana kemur í ljós að mörg ríki hafa staðið frammi fyrir svipuðum áskorunum og Ísland og fundið lausnir sem hafa skilað árangri. Í dag eru ýmis ríki Evrópu að hugsa á sömu nótum, hvernig er hægt að auka fjölbreytileika sparnaðarleiða og gefa almenningi þannig betra val, sem og virkja sparnað betur.
SFF og Nasdaq Iceland stóðu í nóvember fyrir ráðstefnu um leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn, þar sem fjöldi góðra tillagna kom fram. Í erindi sínu á ráðstefnunni fjallaði Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, sérstaklega um reynslu ríkja sem hafa innleitt sérstaka fjárfestingarreikninga fyrir einstaklinga, með það markmið að virkja sparnað almennings. Í gegnum slíka fjárfestingarreikninga geta einstaklingar lagt fyrir og fjárfest í hlutabréfum, sjóðum og öðrum verðbréfum innan einfalds og skýrs ramma. Skattlagningu getur annaðhvort verið frestað eða hún einföld í framkvæmd, þannig að umsýsluaðili sér um uppgjör og einstaklingar geta einbeitt sér að langtímasparnaði og þátttöku í verðmætasköpun atvinnulífsins.
Svíþjóð
Reynsla Svía er afar gott fordæmi er snýr að þessu sparnaðarformi. Um þriðjungur sænsku þjóðarinnar á slíkan reikning og eignir á þeim nema tæpum fimmtungi af vergri landsframleiðslu. Ef sambærilegt hlutfall næðist hér á landi gæti umtalsverður hluti af þeim fjármunum sem nú liggja á bankareikningum færst inn á hlutabréfamarkaði, eða meira en 1.300 milljarðar króna næsta áratuginn.
Í Bretlandi hefur þróunin verið svipuð. Þar nýta milljónir einstaklinga svokallaða ISA-reikninga, sem gera fólki kleift að fjárfesta með einföldum hætti og skýru skattalegu umhverfi. Eignir á slíkum reikningum nema einnig verulegum hluta af landsframleiðslu og hafa orðið mikilvæg stoð undir bæði hlutabréfamarkaðinn og eignamyndun almennings.
Svíþjóð og Bretland eru þó ekki einsdæmi. Sambærileg kerfi hafa gefið góða raun annars staðar á Norðurlöndum, í Kanada, Japan og víða í Evrópu. Umrædd sparnaðarform í þessum ríkjum eiga það sameiginlegt að byggja á skýrum og einföldum reglum sem fólk skilur og treystir.
Hvað þarf til hér heima?
Þegar lagt er upp í breytingar líkt og þær sem hér eru nefndar er ljóst að útfærslan skiptir öllu máli. Í erindi sínu lagði Hafsteinn áherslu á þrjú meginatriði sem þurfa að vera til staðar til að svona kerfi virki. Það eru skattalegt hagræði, sveigjanleiki og einfaldleiki.
Skattalegt hagræði þarf að vera skýrt, fyrirsjáanlegt og auðskilið. Markmiðið er ekki að flækja skattkerfið, heldur að skapa jákvæða hvata sem gera það rökrétt fyrir fólk að spara og að færa hluta af sparnaði sínum yfir í fjárfestingar. Skattfrestun eða einföld og hófleg skattlagning getur haft afgerandi áhrif á ákvörðun fólks.
Sveigjanleiki er lykilþáttur. Enginn binditími, engar lágmarksupphæðir og engar óþarfa takmarkanir á því hvernig og hvenær fólk fjárfestir. Sparnaður þarf að laga sig að lífi fólks, ekki öfugt. Þegar óheftur aðgangur er að sparnaði ef aðstæður breytast eykst traust og þátttaka.
Einfaldleiki bindur fyrrnefnda þætti saman. Reikningar sem þessir þurfa að vera einfaldir í stofnun, umsýslu og hreyfanleika.
Það sparnaðar- og fjárfestingaform sem hér er til umfjöllunar getur stuðlað að sterkari hluthafamenningu og auknu fjármálalæsi. Með meiri reynslu og betra aðgengi verður almenningur sjálfstæðari og öruggari í fjárfestingum sínum. Um leið skapast raunhæfar forsendur til eignamyndunar fyrir heimilin í landinu til lengri tíma.
Viljinn er allt sem þarf
Þegar upp er staðið vantar í raun lítið upp á. Sparnaðurinn er til staðar, reynslan erlendis er augljós og útfærslan liggur fyrir. Ef markmiðið er að virkja sparnað, styrkja hlutabréfamarkaðinn og gefa fleiri Íslendingum færi á raunverulegri þátttöku í verðmætasköpun, þá liggur hluti lausnarinnar nær en margir halda. Það sem þarf er skýr stefna og pólitískur vilji til að hrinda hlutunum í framkvæmd. Hafa ber í huga að við búum í grunninn við sama regluverk og hin norrænu ríkin og ætti því ekki að vera flókið lagalega að horfa til þess sem vel er gert í útfærslu og regluumhverfi, t.d. til Svíþjóðar.
Snemma í febrúar munu Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Nasdaq Iceland standa fyrir viðburði þar sem fjallað verður um fjárfestingarreikninga, reynslu af þeim erlendis frá og ávinninginn sem fengist af því að taka upp slíka reikninga hér á landi.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 6. janúar.


%20(300%20x%20200%20px)%20(2).jpg)












