Hvar lærðir þú um fjármál? En börnin þín?

Grunnskilningur og heilbrigð viðhorf í fjármálum er ekki eingöngu brýnt fyrir einstaklinga, heldur skiptir einnig miklu máli í þjóðhagslegu samhengi. Þetta er meðal þess sem fram kemur stefnu Evrópusambandsins á sviði fjármálalæsis sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í síðustu viku. Stefnan er hluti af áformum um svokallað Sparnaðar- og fjárfestingabandalag (e. Savings and Investments Union), sem ætlað er að vera einn af lykilþáttum í að efla samkeppnishæfni Evrópu.
Könnun á þekkingu meðal íbúa ESB leiddi í ljós að innan við 20% íbúa álfunnar teldust hafa mikið fjármálalæsi. Bættu fjármálalæsi er ætlað að skila íbúum Evrópu bæði persónulegum ábata en einnig stuðla að því að sparnaður Evrópubúa nýtist í meira mæli í að fjárfesta í atvinnulífi Evrópu. Skilningur á grunnhugtökum í fjármálum sé forsenda farsælla fjárfestinga.
Gallup lagði fram sömu könnun á fjármálalæsi meðal almennings á Ísland árið 2023 fyrir SFF. Niðurstaðan var sú að Ísland var yfir Evrópumeðaltalinu en engu að síður mældist nærri einn af hverjum fimm aðspurðra með lítið eða mjög lítið fjármálalæsi. Þá kom fram að þeir sem mældust með lítið fjármálalæsi reyndust vera líklegri en ella til að safna skuldum og hafa lent í vanskilum en þeir sem mældust með mikið fjármálalæsi líklegri til að geta lagt fyrir og fjárfest fyrir hluta af sparnaðinum.
Rannsóknir benda til þess að fjárhagsáhyggjur séu ein helsta uppspretta óhamingju hjá einstaklingum. Mistök í fjármálum á unga aldri geta verið dýr og erfitt að vinna sig úr þeim. Enda ráðleggur OECD stjórnvöldum aðildarríkja sinna að móta sér landsstefnu í fjármálalæsi og gera fjármálalæsi hluta af skyldunámi í hverju landi. Niðurstöður PISA-prófs OECD í fjármálalæsi sýna að ungt fólk víða um heim sé byrjað að fóta sig í sínum persónulegu fjármálum, þrátt fyrir að verulegur hluti þeirra hefði lítinn sem engan skilning á grunnhugtökum í fjármálum heimilisins.
En hvar öðluðust Íslendingar sitt fjármálalæsi? Í áðurnefndri könnun Gallup sögðust flestir hafa lært um fjármál af foreldrum sínum og þá í fjölmiðlum, netinu eða samfélagsmiðlum, þar sem áreiðanleiki upplýsinganna getur verið misjafn. Fæstir sögðust hafa lært um fjármál í skóla eða einungis 10% prósent í grunnskóla og 24% prósent í framhaldsskóla. Þegar fólk var spurt hvar telur þú að fólk ætti að læra um fjármál nefndu langsamlega flestir eða 74% grunnskóla og framhaldsskóla. Þá sögðust um 90% aðspurðra hafa viljað læra meira um fjármál í grunnskóla.
Niðurstöðurnar benda til þess að þó nokkur hluti ungs fólks hér á landi hafi hvorki fengið fræðslu í fjármálum einstaklinga á sinni skólagöngu né á heimilinu. Það reynir engu síður á fjármálalæsi hjá okkur öllum þegar við förum í gegnum lífið og brýnt er að ungt fólk hafi sem jöfnust tækifæri á þessu sviði, sér í lagi í gegnum skólakerfið eins og OECD hefur lagt til.
SFF hafa í gegnum fræðsluvettvanginn Fjármálavit reynt að stuðla að því að ungt fólk fari eins vel nestað út í lífið og mögulegt er þegar kemur að fjármálalæsi en Fjármálavit er auk þess stutt af Landssamtökum lífeyrissjóða. Á síðustu árum hefur Fjármálavit gefið um þrjú þúsund kennslubækur á ári til nemenda og kennara í grunn- og framhaldsskólum um land allt, alls yfir 21 þúsund bækur, auk þess að bjóða upp á aðgang að námsefni, halda námskeið fyrir kennara og halda árlega Fjármálaleikana, landskeppni grunnskóla í fjármálalæsi.
Vel færi á að stjórnvöld hér á landi færu að ráðleggingum OECD og myndu móta sér heildstæða stefnu þegar kemur að því að efla fjármálalæsi þar sem fjármálalæsi yrði hluti af skyldunámi allra ungmenna. Margt hefur áunnist á undanförnum árum og er kennsla í fjármálalæsi víða ýmist skylda eða valfag í grunnskólum, en of víða ekki í boði. Áhyggjur okkar snúa ekki síst að þeim ungmennum sem hvorki fá fræðslu í fjármálum í skólum né á heimilinu. Foreldrar hafa misjafnan grunn í fjármálum og því misjöfn tækifæri til að kenna börnum sínum um fjármál. Mikilvægt er að skólakerfið stuðli að því að börn standi sem jafnast þegar þau halda út í lífið.
Pistilinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 8. október.