SFF styðja rafræna málsmeðferð og kallar eftir lausn svo lánveitingar geti orðið að fullu rafrænar
.jpg)
Breytingar á lögum – stafræn málsmeðferð
SFF skiluðu á dögunum umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp dómsmálaráðherra sem felur í sér breytingar á ýmsum lögum til að auðvelda stafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum. SFF fagna frumvarpinu og telur það mikilvægt framfaraskref í átt að skilvirkari stjórnsýslu og betri þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki. Með því að jafna stöðu rafrænna gagna og pappírsgagna skapast grundvöllur fyrir aukna nýtingu tæknilausna í málsmeðferð. Í umsögninni koma SFF á framfæri mikilvægum ábendingum þannig að frumvarpið nái fyllilegum tilgangi sínum og því hagræði og skilvirkni sem því er ætlað.
Rafrænar skuldaviðurkenningar – lausn í sjónmáli?
Í umsögninni kalla SFF jafnframt eftir úrlausn vegna rafrænna skuldaviðurkenninga. Dráttur á lagasetningu um rafrænar skuldaviðurkenningar hefur valdið óþarfa tvíverknaði, kostnaði og óhagræði fyrir bæði lántakendur og lánveitendur. SFF hvetur stjórnvöld til að ljúka málinu hið fyrsta, enda er hér um að ræða stórt hagsmunamál fyrir heimili, fyrirtæki og samfélagið í heild.
SFF hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að finna lausn hvað þetta varðar eða allt frá árinu 2016, síðast í umsögn í janúar síðastliðnum til hagræðingarhóps stjórnvalda og aftur núna í umsögn í september. SFF leggur fram tillögu að lausn í umsögn sinni sem lýtur að því tilteknum atriðum sé breytt í ýmsum lögum sem tryggja að hægt sé að ljúka lánaferli frá upphafi til enda með rafrænum hætti, þannig að rafrænar þinglýsingar nái í raun að fullu markmiði sínu. SFF benda á að fordæmi séu fyrir lausnum af þessu tagi, t.d. í sérlögum vegna Covid og í tengslum við stuðningslán vegna hamfaranna í Grindavík.
Nefna má sem dæmi að með breytingum væri hægt að klára húsnæðislánaferli algjörlega rafrænt frá upphafi til enda. Þannig mætti koma í veg fyrir þann tvíverknað sem nú ríkir, þar sem lántakendur þurfa að undirrita pappírsskjöl þrátt fyrir rafræna þinglýsingu. Núverandi fyrirkomulag leiðir til óþarfa biðraða og heimsókna í lánastofnun með tilheyrandi kolefnisspori.
SFF taka fram að til að taka af allan vafa þá eru SFF áfram fylgjandi frumvarpi um rafrænar skuldaviðurkenningar, frumvarp þess efnis er þó ekki að finna í nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og telja samtökin málið afar brýnt og nauðsynlegt að fundin verði lausn. Ítreka samtökin því að tillagan sem nú hefur verið lögð fram er í þeim tilgangi að styðja efni, umfram form, að sömu markmiðum.
SFF benda á að möguleg lausn sé í sjónmáli með einföldum breytingum á viðeigandi lagabálkum svo unnt sé að auka hagræði og skilvirkni við lánveitingar fyrir alla hlutaðeigandi aðila.
Það eru heilmikil hagræðingartækifæri í því að finna lausn á því að t.d. íbúðarlánaskjöl sem eru rafræn, og eru rafrænt undirrituð, fái sömu stöðu og skuldabréf. Í dag þurfa skjöl sem þarf að þinglýsa að vera á pappír og undirrituð með penna. Lántakendur vilja geta klárað málið rafrænt og nýtt sér þannig að eiga viðskipti eingöngu á netinu og þurfa ekki að keyra í bankann og taka frí á vinnutíma. SFF hafa áður bent á að áætlaður þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum væri að lágmarki allt að 1,7 milljarður og inni í þeirri tölu er ekki tekinn með ekki allur sparnaður einstaklinga og atvinnulífsins.
Umsögnina í heild má finna hér.