Reglugerð sem er lengri en biblían

Mikil umræða hefur verið í Evrópu varðandi reglugerðarfarg Evrópusambandsins um fjármálamarkaði sem er orðið það mikið að það er farið að hafa veruleg áhrif á samkeppnishæfni evrópskra fjármálafyrirtækja. Í tímamótaskýrslu Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóra sambandsins, frá því í fyrra er lögð mikil áhersla á að regluverkið verði einfaldað til þess að evrópsk fjármálafyrirtæki verði ekki regluvædd út úr samkeppni gagnvart fjármálafyrirtækjum í öðrum löndum.

Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Ingvar Haraldsson samskipta- og greiningarstjóri samtakanna voru í Dagmálum Morgunblaðsins fyrir skemmstu þar sem farið var inn á þetta mál. Ingvar sagði að fæstir geri sér grein fyrir umfangi þeirra reglugerða sem settar hafa verið fyrir fjármálamarkaðinn hér á landi og teknar eru upp í gegnum EES-samstarfið. Bara árið 2023 voru þetta í kringum 70 reglugerðir, lagabreytingar og leiðbeinandi tilmæli sem gerir rúmlega eitt á viku.

Ein af meginreglugerðum EBS um fjármálamarkaðinn er svokölluð MiFiD reglugerð sem hefur verið tekin upp hér á landi. „Ef tekin eru saman öll leiðbeinandi tilmæli í þeirri reglugerð er hún lengri en biblían. Fyrir lítið land með lítinn markað og fámenn fyrirtæki er þetta töluvert íþyngjandi," sagði Ingvar. Ingvar vísaði í framhaldinu til þess að allt sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar geta gert til þess að létta undir með íslenskum fjármálafyrirtækjum skipti máli.

Sjá hér í Dagmálum Morgunblaðsins.