Lagabreytingar sem létta lífið

Öll viljum við geta einfaldað og létt okkur lífið örlítið í amstri dagsins. Við hendumst til og frá vinnu, og leggjum okkur fram við að sinna fjölskyldunni og heilsunni, á meðan skutlast er á milli staða – þegar klukkustundirnar í deginum eru yfirleitt færri en við myndum vilja. Það er léttir í hasar hversdagsins þegar við getum stytt listann yfir viðkomustaði og klárað okkar mál með rafrænum hætti og nýtt sparaðar stundir í eitthvað skemmtilegt, gefandi eða virðisaukandi.

Dæmi um mál sem myndi einmitt stuðla að slíku er að gera breytingar á gildandi lagaumhverfi, þannig að mögulegt verði að afgreiða öll lánaviðskipti algjörlega rafrænt. Slíkt væri í samræmi við stefnu stjórnvalda um einföldun regluverks og að nýta stafrænar leiðir í stjórnsýslu með það að markmiði að bæta líf landsmanna. Í núverandi lagaumhverfi þurfa lántakar hins vegar að mæta á starfsstöð lánveitenda til að skrifa undir lánasamninga á pappír.

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa um nokkurra ára skeið beitt sér fyrir að ráðist verði í úrbætur af hálfu stjórnvalda á þessu sviði. Samtökin hafa af þeim sökum allt frá árinu 2016 kallað eftir að sett verði lög um rafrænar skuldaviðurkenningar. Frumvarp þess efnis hefur ekki náð fram að ganga á fyrri þingum og er ekki að finna í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á yfirstandi þingvetri. Samtökin hafa nýverið bent á aðra lausn sem felst í því að breyta núgildandi löggjöf á þann hátt að hægt verði að klára lánaferli sem þarfnast þinglýsinga frá A-Ö rafrænt. Til staðar eru fordæmi fyrir lausnum af þessu tagi, t.d. í sérlögum um fjárstuðning minni rekstraraðila vegna Covid-19 heimsfaraldursins og í tengslum við stuðningslán vegna hamfaranna í Grindavík. Tæknilegar lausnir eru því fyrir hendi en málið stoppar á gildandi löggjöf. Brýnt er að fundin verði lausn, hvort sem er með því að setja heildarlög um nýtt lánsform eða að breyta lögum sem nú eru í gildi. Hvor leiðin sem yrði valin myndi leysa þann vanda sem er til staðar.

Tvöfalt kerfi orðið til þvert á markmið stjórnvalda

Mikið framfaraskref var þegar lögum var breytt á þann hátt að þinglýsingar gætu farið fram rafrænt en fyrsta rafræna skuldabréfinu var þinglýst árið 2021. Áætlaður þjóðhagslegur ábati þess verkefnis var á sínum tíma talinn að yrði ekki undir 1,2 til 1,7 milljörðum króna og var þá ekki allt tiltekið. Hagræði rafrænna þinglýsinga hefur þó aðeins náðst að hálfu sökum þess að enn þarf undirskrift á pappír á lánasamninga sem þarfnast þinglýsinga. Markmiðinu verður því ekki fyllilega náð fyrr en umræddar breytingar hafa náð fram að ganga.

Útrýming óþarfa ferða og biðraða fyrir lántaka

Lagabreytingu þarf til þess að hægt sé að koma í veg fyrir þann tvíverknað sem nú ríkir þar sem aðili sem tekur lán, sem þarfnast þinglýsingar, t.d. húsnæðislán, þarf að panta tíma í útibúi og gera sér ferð á vinnutíma til þess að undirrita skjöl sem hæglega væri hægt að gera í gegnum rafrænar leiðir. Landsmenn eru enda vanir að sinna sínum fjármálum með rafrænum hætti. Núverandi fyrirkomulag leiðir í senn til handavinnu hjá lánveitendum við lánaafgreiðslu sem hægt væri að komast hjá og óþarfa biðtíma og ferða fyrir lántaka með tilheyrandi kolefnisspori, kostnaði og fyrirhöfn.

Ein ferð til að skrifa undir lánaskjöl er kannski ekki stórmál fyrir marga, en í strjálbýlu landi getur þetta þýtt að lántakar þurfa að ferðast um langan veg til að afgreiða mál sem annars væri hægt að leysa á skömmum tíma með rafrænum hætti. Safnast þegar saman kemur en alls hefur 53 þúsund veðskuldabréfum verið þinglýst síðastliðna tólf mánuði samkvæmt upplýsingum af vefnum Ísland.is eða meira en eitt þúsund í viku hverri að jafnaði.

Framfaraskref sem liggur á að koma til framkvæmda

Ísland er um margt í fremstu röð þegar kemur að bæði stafrænni fjármálaþjónustu og stafrænni stjórnsýslu og við eigum með einföldum hætti að geta gert enn betur.

Takist að ljúka þessu máli er um að ræða stórt framfaraskref sem er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks, með samspili stafrænna lausna fyrirtækja í fjármálaþjónustu og stjórnsýslu fyrir íbúa landsins, enda er hér um að ræða stórt hagsmunamál fyrir heimili, fyrirtæki og samfélagið í heild.

Höfundur er yfirlögfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Pistilinn birtist fyrst i Viðskiptablaðinu þann 1. október.