Endurskoðun laga um brunatryggingar boðuð á vel sóttri ráðstefnu um brunavarnir

Í tilefni af því að um þessar mundir eru fimm ár liðin frá mannskæðasta bruna þessarar aldar, brunanum á Bræðraborgarstíg, stóðu Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins, í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, fyrir ráðstefnunni Brunavarnir og öryggi til framtíðar. Húsfyllir var á ráðstefnunni, auk þess sem streymt var frá henni, og þá var nokkur fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar ráðstefnunnar.

Fram kom á ráðstefnunni að eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg hefði leitt af sér mikla umbótavinnu tengt eldsvoðum, brunaeftirliti og brunavörnum hér á landi. Í umfjöllun HMS um ráðstefnuna er bent á að 12 af 13 úrbótatillögum sem samráðsvettvangur sem HMS leiddi í kjölfar brunans væru komnar til framkvæmda eða í vinnslu. Þrettánda tillagan, sem ekki væri komin til framkvæmda, snýr að endurskoðun laga um brunatryggingar m.a. með það að markmiði að búa til hvata til að brunavarnir verði efldar.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í viðtölum við fjölmiðla eftir ráðstefnuna að tímabært væri að ráðast í endurskoðun laga um brunatryggingar. Í ávarpi sínu á ráðstefnunni benti Daði á að regluverkið í kringum brunatryggingar væri orðið gamalt. Fyrirkomulagið með skyldutryggingu fasteigna sé á margan hátt skynsamlegt en galli væri á regluverkinu þar sem hvati til brunavarna með það að markmiði að tryggja öryggi fólks sé ekki til staðar. Mikilvægt sé að endurbæta fyrirkomulagið þannig að það nýtist líka til þess að tryggja öryggi fólks. 

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar. Inga sagði brunann hafa afhjúpað ýmsa veikleika í kerfinu og margt hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig. Verkefninu sé hins vegar ekki lokið og mikilvægt að halda áfram að bæta brunaeftirlit og brunavarnir.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sagði í erindi sínu að bruninn hefði tekið á alla sem að því komu. Mikilvægt hafi verið að ráðast í raunverulegar úrbætur eftir brunann. Margt hafi tekist vel í þeim efnum en verkinu væri ekki lokið. Meðal annars hvað varðar lagaumhverfið um brunatryggingar fasteigna. Í því samhengi benti Jón Viðar á að tryggingafélögum sé ekki skylt að tryggja ónýta bíla en það sama eigi ekki við um fasteignir, t.d. sem uppfylla ekki öryggiskröfur er snýr að brunavörunum, en í báðum tilfellum er þó um skyldutryggingu að ræða

Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri brunavarna- og markaðseftirlitssviðs HMS, hélt erindið Bræðraborgarstígur fimm árum síðar - frá harmleik til umbóta. Þar rakti Regína þá umbótavinnu sem ráðist var í í kjölfar brunans og HMS hefur leitt með fjölda hagaðila sem leitt hafi af sér tillögurnar 13. Jákvætt væri hve margar þeirra hefðu komist til framkvæmda eða væru í vinnslu og þá væri hún vongóð um að tillaga 13, sem snýr að endurskoðun laga um brunatryggingar kæmist einnig til framkvæmda miðað við ummæli fjármálaráðherra í ávarpi sínu.

Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, hélt erindi þar sem hún sagði meðal annars frá aðkomu ASÍ að kortlagningu búsetu í svokölluðu óleyfishúsnæði í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg.

Birgir Viðarsson, framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar hjá Sjóvá, hélt erindið Stórir brunar – öxlum ábyrgð, þar sem hann sagði frá meðal annars frá lærdómum af nokkrum stórum brunamálum bæði hér á landi og í nágrannaríkjunum. Birgir benti á að margt mætti læra af reynslu Svía í þessum efnum ráðist hefðu í vel heppnaðar kerfisbreytingar sem skilað hefðu sér færri brunamálum þar í landi.

Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS, hélt erindið - Brunabótamat - öryggi almennings vegna fjárhagslegs tjóns af völdum bruna. Tryggvi fjallaði meðal annars um Vegvísi að brunabótamati sem HMS gaf út í sumar þar sem fram kom að stór hluti fasteigna á Íslandi er van tryggður fyrir tjónum þar eigendur hafa ekki látið endurmeta virði fasteigna sinna eftir endurbætur sem þeir hafa ráðist í á heimilinu. Vanmat brunabótamats á landsvísu er líklega4-8% samkvæmt mati HMS, en oft mun meira. Því sé mikilvægt að fasteignaeigendur kynni sér brunabótamat fasteigna sinna og óski eftir endurmati sé þörf á en auk þess sé tímabært að endurskoða lagalega umgjörð brunabótamats, þar með talið lög um brunatryggingar.

Guðni I. Pálsson, brunahönnuður hjá COWI, hélt erindið Brunahönnun bygginga - lærdómur, áskoranir og tækifæri þar sem hann ræddi reynslu sína af málaflokknum og benti á nokkur álitamál tengd málaflokknum.

Einnig kom fram á ráðstefnunni að alls hafi sex manns látist í brunum í byggingum árið 2020, að meðtöldum brunanum á Bræðraborgarstíg, sem var það mest í fjóra áratugi. Frá árinu 2020 hafa 9 manns til viðbótar látist í brunum á Íslandi og alls 48 á þessari öld. Aðeins eitt andlát hafi hins vegar orðið í húsnæði sem byggt var eftir gildistöku byggingarreglugerðar um brunavarnir frá árinu 1998. Andlátum í brunum hefur jafnframt fækkað miðað við það sem var stóran hluta tuttugustu aldar.

Umfjöllun fjölmiðla af ráðstefnunni:

MBL - Daði ætlar að endurskoða lög um brunatryggingar

MBL - Tók á slökkviliðsstjórann að rifja atburðina upp

MBL - Bruninn „opnaði augu þjóðarinnar“

MBL - Margt áunnist en verkinu ekki lokið

MBL - „Þetta var í raun kerfislægt hrun“

Vísir- „Ekkert ó­eðli­legt við það að endur­skoða þetta kerfi“

Vísir- „Fáum enn á borð til okkar at­riði sem maður missir hökuna yfir“

Stöð 2 - Fimm ár frá eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg

Kastljós á RÚV – Fimm ár frá brunanum við Bræðraborgarstíg