Fjármálavit og Nasdaq styrkja frumkvöðla í fjármálalæsi

Bjöllum Nasdaq kauphalla víða um heim er hringt þessa vikuna í tilefni af Alþjóðlegri fjárfestaviku Heimssamtaka kauphalla 6. – 12. október (Ring the Bell for Financial Literacy – World Investor Week), þar með talið í Reykjavík. Tilefnið er að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir almenning um fjárfestingar og sparnað.
Nasdaq Iceland, ásamt Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) stóðu að hringingu Kauphallarbjöllunnar í ár og buðu til hringingar þeim aðilum sem hlutu annars vegar styrk úr styrktarsjóði Nasdaq Iceland og hins vegar styrk frá Fjármálaviti, sem er fræðsluvettvangur SFF og er auk þess studdur af Landssamtökum lífeyrissjóða.
Styrkur Fjármálavits er til útgáfu á borðspilinu Aur og áhætta sem er afurð nýsköpunaráfanga Verzlunarskóla Íslands og er hugsað sem skemmtilegt uppbrot á námsefni í fjármálalæsi. Öllum grunnskólum landsins verður boðið eintak af spilinu.
Tveir aðilar fengu styrk úr Styrktarsjóði Nasdaq Iceland; Dyngja, fjárfestingarforrit fyrir fjármálalæsi og Fortuna Invest en hvort um sig hlaut styrk að upphæð 400 þúsund krónur. Dyngja mun nýta styrkinn til að þróa app-útgáfu Dyngju frekar fyrir leiki og Fortuna Invest til markaðssetningar á verkefni sem miðar að því að veita foreldrum tæki og tól til að fræða börn sín um fjármál og sparnað.
„Það er okkur mikil ánægja að veita styrk úr Styrktarsjóði Nasdaq Iceland nú í fyrsta sinn,” segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Sjóðurinn er sérstaklega ætlaður til stuðnings við verkefni sem miða að auknu fjármálalæsi og að efla þekkingu á verðbréfamörkuðum. Verkefni bæði Dyngju og Fortuna Invest eru vel útfærð og leggja áherslu á að auka þekkingu og sjálfstraust almennings í fjármálum, sem stuðlar að efnahagslegum framförum í samfélaginu. Við óskum þeim og Aur og áhættu innilega til hamingju og velfarnaðar með verkefnin.”
„Við fögnum innilega framtaki Nasdaq Iceland. Þetta framtak þeirra er bæði hvetjandi og nauðsynlegt. Það er mikill hraði og samfélagspressa á ungt fólk. Það er afar mikilvægt að öllum börnum sé gefinn kostur á að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Á sama hátt og engin börn fara út í umferð án þess að hafa grundvallarþekkingu í umferðarreglum, þá á ekkert barn að fara út í lífið án grundvallarþekkingu í fjármálum. Því þarf fjármálakennsla að vera skyldunám í grunnskólum, og kennt heildrænt og með samræmdum hætti. Fjármálavit hefur á undanförnum árum gefið börnum og kennurum um 21.000 bækur, stutt við fræðslu kennara, sem þess óska og hefur staðið fyrir Fjármálaleikum á hverju ári. Um 90% ungmenna vildu hafa lært meira um fjármál í grunnskóla, meðan um 11% hafa fengið þá kennslu.“ segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

„Hverjum manni er hollt og nauðsynlegt að vera læs á fjármálaumhverfi sitt sem í raun er alltumlykjandi í daglegu lífi okkar. Þess vegna styrkjum við og styðjum fræðsluvettvanginn Fjármálavit. Kjarni þess verkefnis er reyndar sígildur og meitlaður í fleyga málshætti og orðskviði, svo sem þá að sparað fé sé áunninn auður – Græddur er geymdur eyrir – og að fólk verði að meta hið smáa til að eignast mikið – Enginn eignast krónuna nema hirða eyrinn!“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.