Fjármálalæsi í Vísindaskóla unga fólksins á Akureyri

„Ég ætla aldrei að eignast börn því það er svo dýrt.“ Þetta voru orð eins af þátttakendum í Vísindaskóla unga fólksins eftir að hafa setið námskeið í fjármálalæsi og komist að því hvað það kostar að vera unglingur en það var eitt af mörgum þemum Vísindaskólans í ár.

Vísindaskóli unga fólksins var haldinn dagana 23. – 27. júní í húsakynnum Háskólans á Akureyri en markmið hans er að bjóða ungmennum á aldrinum 11-13 ára upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu þar sem þau kynnast hinum ýmsu viðfangsefnum úr daglegu lífi.

Þetta er í þriðja skiptið sem sérfræðingar frá fræðsluvettvanginum Fjármálaviti sinna fjármálafræðslunni en þar er farið yfir grunnþætti fjármála eins og helstu tekjur og útgjöld heimilis, mikilvægi sparnaðar og vaxta, mikilvægi þess að eyða minna en við öflum og hvað það kostar að vera til.

Að sögn Kristínar Lúðvíksdóttur verkefnisstjóra Fjármálavits eru það mikil forréttindi að fá að hitta ungmennin og ræða við þau um hinar ýmsar hliðar peninga. Um fræðsluna sáu sérfræðingar í fjármálafyrirtækjum á Akureyri, þau Rakel Friðriksdóttir frá Íslandsbanka, Jakob Snær Árnason frá Arion banka, Sigrún Guðjónsdóttir og Dagmar Guðmundsdóttir frá Landsbankanum.

Sigrún Stefánsdóttir er skólastjóri Vísindaskólans, „Þetta er ellefta árið okkur með Vísindaskólann og það hefur verið ómetanlegt að fá fjármálalæsið inn á dagskrána. Við leggjum mikla áherslu á gæði og gleði í kennslunni og þessa þætti hefur sko sannarlega ekki vantað hjá þeim sem hafa komið að þessu verkefni um fjármálin Ég vildi óska þess að ég hefði fengið svona fræðslu þegar ég var stelpa að alast upp á Akureyri.“

Nánar um fjármálvit á vef Fjármálavits.