Auknar álögur á fjármálastarfsemi

Rætt er við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í Viðskiptablaðinu í vikunni í kjölfar hækkunar Seðlabankans á vaxtalausri bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3%. Með breytingunni verði lánastofnunum gert að auka bindiskyldar innistæður í Seðlabankanum sem ekki bera vexti úr 60 milljörðum í 90 milljarða króna. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að það mat stofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vaxtalaus bindiskylda seðlabanka sé ígildi skattlagning fyrir fjármálafyrirtæki og hafi álíka áhrif og aðrir slíkir skattar. Þá sé áætlað að hækkunin hafi í för með sér um þrjá milljarða á ári í tapaðar vaxtatekjur fyrir lánstofnanir miðað við núverandi vaxtastig sem þýði að alls verði lánastofnanir af um átta milljörðum á ári í tapaðar vaxtatekjur á ári vegna vaxtalausrar bindiskyldu miðað við núverandi vaxtaumhverfi.

„Breytingin er ígildi enn einnar skattahækkunar á bankakerfið hér á landi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kveðið úr um að vaxtalaus bindiskylda sé ekki frábrugðin hefðbundinni skattlagningu á fjármálastarfsemi og virki með sama hætti. Í dag eru fyrir verulegar viðbótarálögur á innlend fjármálafyrirtæki, bæði umfram aðrar atvinnugreinar og fjármálafyrirtæki í nágrannaríkjunum, sem hafa margvísleg neikvæð áhrif í efnahagslífinu,“ segir Heiðrún við Viðskiptablaðið.

„Gera má ráð fyrir því að þunginn af þessu sértækum sköttum skiptist með einhverjum hætti milli hluthafa og viðskiptavina banka, sem í báðum tilfellum eru að stórum hluta íslenskur almenningur enda viðskiptabankarnir að mestu í eigu ríkisins og lífeyrissjóða. Þessi breyting ætti því að vera stjórnvöldum hvatning til að ráðast í heildstæða skoðun á sköttum, gjöldum og sérkröfum sem fjármálafyrirtæki hér á landi bera umfram nágrannaríki okkar og annan fyrirtækjarekstur og hvaða áhrif þær hafa á bæði samkeppnishæfni þeirra og viðskiptavina þeirra. SFF hafa í þeim efnum lagt áherslu á mikilvægi þess að íslensk fjármálafyrirtæki búi við sambærilegt skattalegu umhverfi og fyrirtæki í samanburðarlöndunum,“ segir Heiðrún.

„Við hefðum talið að betur færi á því að þessi breyting hefði átt sér stað að undangenginni umræðu á breiðari grunni og með meiri fyrirvara þar sem velt væri upp hvort aðrar leiðir séu færar fyrir Seðlabankann til að ná sömu markmiðum. Heimilin og atvinnulífið allt nýtur ábatans af gjaldeyrisforða og stöðugu gengi. Ábatinn einskorðast ekki við lánastofnanir sem þó eru teknar sérstaklega út fyrir sviga þegar kemur að fjármögnun forðans. SFF hafa áður bent á, að þó óumdeilt sé að Seðlabankinn geti beitt bindiskyldu til að ná peningastefnulegum markmiðum, sé ekki ótvíræður lagagrundvöllur fyrir því að beita vaxtalausri bindiskyldu til að láta bankana greiða fyrir hluta af kostnaði af gjaldeyrisforðanum með þessum hætti,“ segir Heiðrún jafnframt við Viðskiptablaðið.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins má lesa hér.