SFF tekur undir ítrekaðar áhyggjur Fjármálaeftirlitsins af flóknu regluverki

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri skrifaði ásamt kollegum sínum á hinum Norðurlöndunum bréf til Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) í maí síðastliðnum þar sem var var við flækjustigi regluverks sem gildir um fjármálastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Þetta bréf var ítrekun á sambærilegu bréfi sem sent var til EBA í fyrra. Hátt ákall er í Evrópu um þessar mundir um einföldun regluverks sem telur um 15.000 blaðsíður og er sérlega íþyngjandi fyrir fámenn ríki á borð við Ísland.

Í grein Viðskiptablaðsins um málið tekur Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu heilshugar undir þessi sjónarmið sem samtökin hafa sjálf einnig bent á. „Öll viljum við góðar og skýrar reglur sem og virkt og áhættumiðað eftirlit. Engu síður er umfang og flækjustig regluverksins bæði kostnaðarsamt og orðinn sérstakur áhættuþáttur eins og umræðan í Evrópu ber með sér. Þetta á sér í lagi við um fámenn ríki á borð við Ísland, og á það bæði við fyrirtækin sem starfa samkvæmt löggjöfinni, en einnig stjórnvöld og eftirlitsaðila. Því er full ástæða til að taka undir ákall um að einfalda regluverkið. Þar væri til bóta að vinda ofan af íþyngjandi séríslenskum lagaákvæðum sem felast í svokallaðri gullhúðun eða blýhúðun og draga úr kostnaði af skýrsluskilum, til að mynda með því að fella niður kröfu um ýmis séríslensk gagnaskil sem ekki þjóna lengur tilgangi sínum," segir Heiðrún.

Heiðrún bendir einnig á mikilvægi þess að Ísland sé með svipaðar eiginfjárkröfur og bindiskyldu og nágrannaríki okkar, til að skekkja ekki samkeppnishæfnina enn frekar. EBF, Evrópsku bankasamtökin, leggja áherslu á að auka samkeppnishæfni Evrópu með því að einfalda regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.  Mikilvægt er að reglur styðji og treysti fjármálastöðugleika og verndun neytenda en stuðli jafnframt að vexti og samkeppnishæfni. 

Sjá frétt Viðskiptablaðsins hér.