Heil­brigðis­vott­orð á fjár­mála­kerfið

Öllum er okkur hollt að fá reglulega utanaðkomandi aðila til að kanna hvort hlutirnir gangi fyrir sig eins og þeir eiga að gera, enda gests augað glöggt. Nokkrar slíkar úttektir sem snúa að íslensku fjármálakerfi voru framkvæmdar á árinu. Rauði þráðurinn í niðurstöðum þeirra er að þær breytingar sem gerðar hafi verið á umgjörð fjármálastarfsemi hér á landi undanfarin ár hafi reynst heillavænlegar.

Samkvæmt niðurstöðu viðamikillar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom út í sumar stendur íslenska fjármálakerfið sterkt, þrátt fyrir ýmsar áskoranir á borð við heimsfaraldur og óróa í alþjóðamálum. Það er mat sjóðsins að þær kerfisbreytingar sem ráðist hafi verið í á síðustu árum hafi á heildina litið reynst skynsamlegar og stuðlað að öflugri og traustari fjármálageira.

Starfshópur viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna skilaði af sér skýrslu undir lok sumars. Þar var meðal annars gerður fyrsti samanburðurinn, í nokkurn tíma, á milli þjónustugjalda banka hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslunni hefur verð á bankaþjónustu hér á landi lækkað um 15% til 17% að raunvirði frá árinu 2018. Þá virðast íslensk heimili greiða áþekkt hlutfall af útgjöldum sínum í banka- og kortakostnað, að frátöldum vaxtakostnaði, samanborið við hin Norðurlöndin. Enn fremur kemur fram í skýrslunni að vaxtamunur heimila á milli húsnæðislánavaxta og sparnaðarreikninga sé talinn vera næst lægstur á Íslandi af Norðurlöndunum.

Þetta verða að teljast nokkuð hagfelldar niðurstöður fyrir Ísland í ljósi smæðar markaðarins og íslenskra fjármálafyrirtækja, til viðbótar við ýmsar áskoranir í samkeppnisumhverfinu. Þar má til að mynda nefna mun hærri sértæka skattlagningu á fjármálafyrirtæki hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og hæstu samanburðarhæfu eiginfjárhlutföll bankakerfa í Evrópu.

Fjárfesting í starfrænum lausnum á undanförnum árum og aukið samstarf á sviði upplýsingatækni í gegnum Reiknistofu bankanna hefur vafalaust átt þátt í þessari niðurstöðu. Þá má vænta að aðgerðir til að stuðla að auknu valfrelsi neytenda hafi reynst farsælar, bæði þegar kemur að breytingum á starfsumhverfinu sem og auknu framboði stafrænna lausna fyrir viðskiptavini.

Jákvæð tíðindi af lánshæfi bæði íslensku bankanna og íslenska ríkisins á árinu eru einnig ánægjuleg. Það eru góðar líkur á að bæði íslenska ríkið og innlend fjármálafyrirtæki eigi inni frekari hækkun á lánshæfi sínu, sé tekið mið af sterkum grunnstoðum hagkerfisins og hóflegum skuldahlutföllum. Þar er um að ræða umtalsverða hagsmuni fyrir Ísland sem vonandi skilar sér í bættum lánskjörum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.

Skjálfti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, til að mynda í kjölfar falls banka í Sviss og Bandaríkjunum, síðastliðinn vetur hafði talsverð áhrif á vaxtakjör íslensku bankanna. Þau áhrif eru áminning um að hlúa þarf vel að starfsumhverfi íslenskra fjármálafyrirtækja. Vaxtaálag á skuldabréfaútgáfur íslensku bankanna í erlendum gjaldmiðlum hækkaði langt umfram það sem gerðist í nágrannaríkjunum og hafði álagið ekki verið hærra frá því bankarnir hófu útgáfu slíkra bréfa á ný árið 2015. Ísland er lítið og á óvissutímum halda erlendir fjárfestar oft fyrst að sér höndum gagnvart smærri mörkuðum. Það skiptir því miklu fyrir íslenskt efnahagslíf og efnahagslegt sjálfstæði landsins að starfsumhverfi fjármálageirans sé þannig að innlend fjármálafyrirtæki hafi getu til að sinna þörfum íslensks atvinnulífs og heimila.

Innanlands hafa jarðhræringar á Reykjanesi og staða Grindvíkinga staðið upp úr á árinu. Viðskiptabankarnir felldu niður vexti og verðbætur af húsnæðislánum Grindvíkinga og tryggingafélögin felldu niður iðgjöld til að veita Grindvíkingum aukið fjárhagslegt svigrúm til að vinna úr sínum málum eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Jákvætt hefur verið að sjá samstöðu þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum, enda er ávallt fleira sem sameinar okkur en sundrar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Pistlinn birtist í Innherja, viðskiptavef Vísis, 23. desember.