Ísland öruggt en svik engu síður vaxandi áskorun

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í kvöldfréttum Stöðvar 2 nýverið í kjölfar umfjöllunar um mál sem tengjast stuldi á peningasendingum og hraðbanka. Heiðrún lagði áherslu á að Ísland væri almennt öruggt land og mál sem þessi væru fátíð.
Það mætti að nokkru leyti skýra með því hve notkun reiðufjár hefði dregist saman á síðustu árum. Einungis um 2% greiðslna í verslunum ættu sér stað með reiðufé samkvæmt nýlegri samantekt Seðlabankans.
Samhliða því að fjármálaþjónusta fari í sífellt meira fram í stafrænum heimi hefði tilraunum til netsvika hins vegar fjölgað. Mikil áhersla hefði því verið lögð á að auka við allar forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn netsvikum til viðbótar við hefðbundnari öryggisráðstafanir tengdum reiðufé. Þá væri brýnt fyrir alla að vera vakandi fyrir hvers kyns svikatilraunum.
Engu síður sýnir nýleg skýrsla Seðlabankans að almennt sé greiðslukerfið á Íslandi öruggt miðað við umfang heppnaðra svikatilrauna.
Góð ráð til gegn netsvikum má finna á vefnum Taktu tvær.