Íslensku bankarnir binda meira eigið fé en norrænir

Íslensku bankarnir hafa hærra hefðbundið eiginfjárhlutfall en bæði álíka stórir bankar og stærri kerfislega mikilvægir bankar á hinum Norðurlöndunum. Þetta kom fram í máli Heiðrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, í Morgunblaðinu á föstudaginn síðastliðinn þar sem hún vísaði til nýlegrar greiningar sem birt var á vef Seðlabankans.

Í grein Seðlabankans voru bornir saman ýmsir þættir í rekstri íslensku bankanna við tíu álíka stóra banka í bæði Noregi og Danmörku. Í greininni segir að eiginfjárkröfur á íslensku bankanna séu sambærilegar við banka af svipaðri stærð á hinum Norðurlöndunum, en sökum þess að íslensku bankarnir eru kerfislega mikilvægir beri þeir viðbótareiginfjárkröfur. Í greininni kemur fram að heildareiginfjárkröfur á kerfislega mikilvægu bankana hér á landi séu að meðaltali 19,9%, sem sé hærra en meðaltal eiginfjárkröfu norrænu samanburðarbankanna sem var 17,2%. Sé hins vegar horft fram hjá eiginfjárkröfu vegna kerfislegs mikilvægis væri heildarkrafan á íslensku bankana lítillega lægri en á þá norrænu.

Engu síður sé vogunarhlutfall íslensku bankanna, sem sé álíka og hefðbundið eiginfjárhlutfall, það hæsta á EES-svæðinu og því hærra en allra hinna Norðurlandanna.

Umfangsmikið regluverk gildir um eigið fé banka, og ræðst lágmarks eigið fé banka m.a. af samspili eiginfjárkröfu eftirlitsaðila sem taka á mið af áhættuþáttum í rekstrinum sem og ítarlegum reglum sem gilda um útreikning áhættuveginna eigna.

Heiðrún segir við Morgunblaðið að margt fróðlegt komi fram í grein Seðlabankans. Almennt sé nærtækt að bera íslensku bankana saman við aðra kerfislega mikilvæga banka, enda hafi þeir sambærilega stöðu í viðkomandi löndum. „Í þeim samanburði eru íslensku bankarnir afar smáir en að sama skapi með fremur lágt flækjustig, sé til að mynda horft á umfang starfsemi yfir landamæri,“ segir Heiðrún.

Heiðrún bendir einnig á að í grein Seðlabankans komi fram að aðrar álögur á íslenska banka séu meira íþyngjandi hér á landi en á Norðurlöndunum. Þannig komi m.a. fram að skattar sem íslenskir bankar greiði séu með þeim hæstu í Evrópu. Auk þess nefnir Heiðrún að óvaxtaberandi bindiskylda sé hærri hér á landi en gengur og gerist annars staðar, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kveðið úr um að hækkun bindiskyldu sé ígildi skattahækkunar.

Sjá frétt Morgunblaðsins hér

Hér má sjá grein Seðlabankans