Vel sótt ráðstefna um mikilvægi fjármálalæsis

SFF héldu með ráðstefnu um fjármálalæsi fimmtudaginn 18. janúar undir yfirskriftinni „Fjármálavit ungs fólks“ í Veröld, húsi Vigdísar. Framsögumenn voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Friðrik Björnsson markaðsstjóri Gallup, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri Lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis og Auður Bára Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun. Kristín Lúðvíksdóttir verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá SFF stýrði fundinum.Bæði Áslaug Arna og Ásgeir töldu mjög mikilvægt að efla fjármálalæsi og setja það inn í námskrá grunnskóla. Fjármálalæsi sé mjög mikilvægur þáttur í þeirri grunnfærni sem ungt fólk þarf að tileinka sér til þess taka þátt í samfélaginu og draga úr líkum á því að fólk fari í fjárhagserfiðleika. Með því að setja fjármálalæsi inn í námskrá grunnskóla sitji allir einstaklingar við sama borð hvað þetta varðar.Friðrik kynnti niðurstöður könnunar Gallup á fjármálalæsi Íslendinga og viðhorfum til fjármálafræðslu. Þar kom meðal annars fram að um 90% landsmanna hefðu vilja læra meira um fjármálalæsi í grunnskóla á sama tíma og einungis um 10% landsmanna sögðust hafa fengið slíka fræðslu í grunnskóla. Algengast var að fólk hefði lært um fjármálalæsi af foreldrum og þá samfélagsmiðlum, netinu eða fjölmiðlum. Hins vegar fannst flestum, eða 74% aðspurðra, að slík fræðsla ætti helst heima á grunn- og framhaldsskólastiginu.Í sambandi við fjárhagserfiðleika fjallaði Dóra Guðrún um eigin rannsókn sem sýnir að fjárhagserfiðleikar hafa mikið meiri áhrif á hamingju fólks en tekjur þess og að fjárhagserfiðleikar sé ein stærsta uppspretta óhamingju hér á landi. Auður Bára fjallaði um aðalnámskrá grunnskólanna og hvar fjármálafræðsla rúmaðist innan þess ramma.Í pallborðinu sátu Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla, Tinna Ösp Arnardóttir, viðskipta- og hagfræðikennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Jón Jósep Snæbjörnsson, viðskiptatengslastjóri Auðbjargar, Alma Björk Ástþórsdóttir, sérfræðingur í fjármálalæsi og varaformaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra. Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, stýrði pallborðinu.

Umfjöllun fjölmiðla um fundinn

Nokkur fjölmiðlaumfjöllun varð um fundinn sem hægt er að kynna sér nánar hér:Vantar að standa við loforð um eflingu fjármálalæsis í skólakerfinu, Bítið á Bylgjunni „Lítið fjármálalæsi geti komið niður á velsæld einstaklinga“ - rúv.is „Fjármálalæsi verði skylda - Morgunblaðið„Skiptir ótrúlega miklu máli að efla fjármálalæsi” - vb.isMyndir: Fjármálavit ungs fólks - vb.isViðtal við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF og Friðrik Björnsson, markaðsstjóra Gallup: Samfélagið - Alþingi kemur saman, fjármálalæsi, málfar og Þjóðaskjalasafn | RÚV Útvarp (ruv.is)Þá var fundurinn sendur út í beinu streymi á mbl.is og á samfélagsmiðlum SFF.Horfa má á upptöku af fundinum hér.