Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum varðandi stafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum
Breytingar á lögum – stafræn málsmeðferð
SFF hafa skilað umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi dómsmálaráðherra sem felur í sér breytingar á ýmsum lögum til að auðvelda stafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum.
SFF fagnar frumvarpinu og telur það mikilvægt framfaraskref í átt að skilvirkari stjórnsýslu og betri þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki. Með því að jafna stöðu rafrænna gagna og pappírsgagna skapast grundvöllur fyrir aukna nýtingu tæknilausna í málsmeðferð. Í umsögninni kemur SFF á framfæri mikilvægum ábendingum þannig að frumvarpið nái fyllilegum tilgangi sínum og því hagræði og skilvirkni sem því er ætlað.
SFF leggur m.a. til að í frumvarpið verði bætt skýru ákvæði þess efnis að rafræn gögn sem undirrituð eru með fullgildri rafrænni undirskrift eða innsigluð með fullgildu rafrænu innsigli skuli ávallt jafngilda frumriti. Að mati SFF myndi slík viðbót auka líkur á að markmið tillagnanna nái fram að ganga. Einnig var á það bent að tekið verði til skoðunar að leggja til breytingar á frumvarpinu varðandi afhendingarmáta gagna sem stafa frá einkaaðilum, þannig að þeim verði gert kleift að birta t.d. greiðsluáskoranir í gegnum stafrænt pósthólf.
Rafrænar skuldaviðurkenningar – lausn í sjónmáli? – efni, umfram form
Í umsögn sinni kalla SFF jafnframt eftir lausn vegna rafrænna skuldaviðurkenninga. Dráttur á lagasetningu hefur valdið óþarfa tvíverknaði, kostnaði og óhagræði fyrir bæði lántakendur og lánveitendur. SFF hvetur stjórnvöld til að ljúka málinu hið fyrsta, enda er hér um að ræða stórt hagsmunamál fyrir heimili, fyrirtæki og samfélagið í heild.
SFF hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að ljúka löggjöf um rafrænar skuldaviðurkenningar, m.a. allt frá árinu 2016. Þær myndu gera lántökuferli t.d. vegna húsnæðiskaupa rafrænt frá upphafi til enda og koma í stað þess tvíverknaðar sem nú ríkir, þar sem lántakendur þurfa að undirrita pappírsskjöl þrátt fyrir rafræna þinglýsingu.
SFF minna á að fordæmi séu fyrir lausnum af þessu tagi, t.d. í sérlögum vegna Covid og í tengslum við stuðningslán vegna hamfaranna í Grindavík, þar sem rafrænar leiðir voru opnaðar með góðum árangri. Nú sé mikilvægt að nýta tækifærið til að klára þetta mál. SFF benda á að möguleg lausn er í sjónmáli í umsögn sinni með einföldum breytingum á nokkrum lagabálkum.
SFF tekur fram að til að taka af allan vafa þá yrði SFF áfram fylgjandi frumvarpi um rafrænar skuldaviðurkenningar, frumvarp þess efnis er þó ekki að finna í nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og telja samtökin málið afar brýnt og nauðsynlegt að fundin verði lausn. Ítreka samtökin því að tillagan sem nú hefur verið lögð fram er í þeim tilgangi að styðja efni, umfram form, að sömu markmiðum. Samtökin telja því rétt að benda á þetta tækifæri sem yrði mikið framfaraskref í rafrænni stjórnsýslu, lántöku og viðskiptum hérlendis.
Umsögnina má finna hér til hliðar.