Umsögn til Alþingis um stafrænan viðnámsþrótt (DORA)
Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa skilað inn umsögn til Alþingis um endurflutt frumvarp til laga um stafrænan viðnámsþrótt fjármálamarkaðar. SFF fagna jákvæðum breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu, þar sem að nokkru leyti var horft til athugasemda í umsögn samtakanna frá því í apríl á þessu ári í tengslum við flutning málsins á 156. löggjafarþingi. Samtökin telja engu að síður mikilvægt að benda á mikilvæga þætti sem nauðsynlegt er að horfa til og hafa ekki skilað sér inn í frumvarpið sem nú liggur fyrir.
SFF eru áfram þeirrar skoðunar að rétt sé að lækka hámarksfjárhæð sekta á einstaklinga og ítreka fyrri athugasemdir. Samtökin ítreka jafnframt framkomnar athugasemdir um að mat verði lagt á hvort ástæða sé til endurskoðunar á orðalagi 11. gr. frumvarpsins.
Þá benda samtökin á að innleiðing DORA muni hafa talsverðan kostnað í för með sér fyrir þá aðila sem kröfur DORA taka til og að verkefnum Seðlabankans muni fjölga með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir stjórnvöld, sem mætt verður með hækkun eftirlitsgjalds. Eftirlitsgjaldið er greitt af aðilum sem lúta eftirliti, en þeir aðilar munu því ekki eingöngu verða fyrir kostnaði vegna innleiðingar á DORA í sinni starfsemi, heldur jafnframt koma til með að standa straum af viðbótarkostnaði við fjármálaeftirlit sem innleiðing DORA kallar á.
Að lokum benda SFF á að nauðsynlegt sé að tryggja með sanngjörnum hætti að tilætluð markmið náist með lagasetningunni á þann hátt að stjórnvöld og eftirlitsaðilar styðji við markaðinn með upplýsingum, fræðslu og samstarfi. Bæði fyrirtækin sem undir eftirliti eru og eftirlitsaðilar eru öll að læra að fóta sig í nýju regluverki.
Umsögnina í heild sinni má nálgast hér.
Fyrri umsögn um málið frá 22. apríl sl. má nálgast hér.
Sjá önnur erindi í 99. máli hér.