Umsögn: Tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda
SFF skrifuðu umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (erlendar fjárfestingar). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattskyldu erlendra aðila með það að markmiði að efla erlendar fjárfestingar hér á landi.
Með frumvarpinu er fyrirhugað að fella á brott skattskyldu erlendra aðila vegna hagnaðar af sölu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta. Samtökin leggja til að gildissvið ákvæðisins verði víkkað út þannig að það einskorðist ekki við verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði markaðsetta fyrir almenna fjárfesta, heldur gildi ákvæði þess um alla sérhæfða sjóði.
Þá lögðu samtökin til að samhliða fyrirhuguðum breytingum yrði skoðað nánar hvort rétt væri að fella á brott ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga um tekjuskatt, en samkvæmt ákvæðinu telst innleystur gengishagnaður af innlausnarreikningum og hvers konar kröfum í erlendri mynt á innlausnarári til vaxtatekna.
SFF bentu á að á ráðstefnunni „Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn“, sem SFF héldu ásamt Nasdaq á Íslandi nú í nóvember, hafi verið samhljómur á meðal framsögumanna og annarra þátttakenda um mikilvægi þess að efla fjárfestingar erlendra aðilda hérlendis. Í erindum sínum á ráðstefnunni höfðu Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri orð á mikilvægi erlendra fjárfestinga og vísaði ráðherra sérstaklega til umrædds frumvarps í því samhengi. Í erindi forstjóra Nasdaq á Íslandi var jafnframt bent á að mikilvægt væri að fjölga erlendum fjárfestum og m.a. nefnd hugmynd að afnema skatta af söluhagnaði erlendra fjárfesta. Í umsögn ítrekuðu SFF mikilvægi þess að auka hvata fyrir erlendra aðila til að fjárfesta á Íslandi samhliða því að efla hlutabréfamarkaðinn og þar með hagsæld í þjóðfélaginu, í takt við stefnu stjórnvalda.
Sjá málið á vef Alþingis hér.
Umsögnina í heild sinni má nálgast hér.