Umsögn SFF um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035
Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) rituðu umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um áform stjórnvalda um atvinnustefnu til ársins 2035 þar sem bent er á nokkra þætti er snúa að þeirri umgjörð sem mörkuð hefur verið um fjármálaþjónustu hér á landi og hvernig fjármálaþjónusta getur stutt við markmið stjórnvalda um aukna verðmætasköpun og vaxandi framleiðni.
Ein forsenda þess að vel takist við þau fjölmörgu tækifæri sem til staðar séu hér á landi við uppbyggingu innviða og atvinnuvega sé skilvirk miðlun fjármagns til hagkvæmustu nota, sem sé eitt af meginhlutverkum fjármálaþjónustu í efnahagslífinu. Reynslan hafi sýnt að öflug innlend fjármálafyrirtæki skipti miklu fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Því sé brýnt að stjórnvöld á hverjum tíma hugi að samkeppnishæfni og starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja og fjármálamarkaða hérlendis.
Bent er á að innlend fjármálafyrirtæki búa við ýmsar íþyngjandi álögur og kröfur umfram nágrannaríki Íslands. Þar megi nefna háa sértæka skatta, háar eiginfjárkröfur og háa óvaxtaberandi bindiskyldu, sem ásamt náttúrulegu smæðaróhagræði, stuðla að svokölluðu Íslandsálagi. Við þetta bætist gullhúðun Evrópureglna um fjármálastarfsemi af hálfu innlendra stjórnvalda. Mikilvægt sé að stjórnvöld á hverjum tíma vegi saman kostnað og ábata af þessum íþyngjandi kvöðum á fjármálaþjónustu hér á landi.
Í samhengi við markmið stjórnvalda um aukna framleiðni og vel launuð störf sýni nýlegri greining Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að framleiðni vinnuafls í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafi aukist mest innlendra atvinnugreina árin 2014-2023 og sé tæplega þreföld á við meðaltalið á íslenskum vinnumarkaði. Frekari tækniframfarir, m.a. á sviði gervigreindar, kunni að leiða til þess að sú þróun haldi áfram en á móti vegi vaxandi og í mörgum tilfellum íþyngjandi regluverk sem gildi um fjármálastarfsemi. Það sé því hugsanlega áhyggjuefni að framleiðni í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafi lækkað undanfarin tvö ár.
Brýnt sé að innleiðing EES-regluverks sé vönduð, tímanleg og vel kynnt, auk þess að fylgst sé með alþjóðlegri þróun og talað skýrt fyrir hagsmunum Íslands, m.a. um einföldun íþyngjandi regluverks. Áfram séu til staðar tækifæri í stafrænum umbótaverkefnum í opinberri stjórnsýslu, meðal annars með lagabreytingu er snýr að rafrænum skuldaviðurkenningum, sem stuðlað gætu að auknu hagræði fyrir bæði neytendur og veitendur fjármálaþjónustu. Auk þess benda samtökin á leiðbeiningar OECD um stefnu í fjármálalæsi þar sem mælst er til að kennsla í fjármálalæsi verði hluti af skyldunámi.