Umsögn vegna innleiðingar sjálfbærnireikningsskilatilskipunar ESB (CSRD)
Umsögnin snýr að áformum um breytingu á lögum er varðar skýrslu stjórnar og innihaldi hennar. Áformin ganga út á að skýrsla stjórnar muni eftirleiðis innihalda ítarlega umfjöllun um ýmislegt sem snertir sjálfbærnimál í starfsemi fyrirtækisins. Almenna reglan hefur verið sú að skýrsla stjórnar hefur innihaldið heildstætt yfirlit um það helsta sem snertir starfsemi fyrirtækisins og þróun rekstrar. Ekki hefur verið farið mjög ítarlega í einstaka þætti starfseminnar í skýrslu stjórnar. Með því að færa inn í skýrslu stjórnar ítarlega umfjöllun um sjálfbærnimál telur SFF að jafnvægið í skýrslunni raskist, skýrslan verði ekki eins læsileg og að lesandinn fái þá tilfinningu að sjálfbærnimál, sem skipti vissulega miklu máli, skipti meira máli í starfsemi fyrirtækisins en þau gera í raun og veru. SFF telur betur færi á að hafa umfjöllun um sjálfbærnimál og sjálfbærnireikningsskil með ítarlegri hætti í ársskýrslu eða öðrum sambærilegum skýrslum sem skýrsla stjórnar gæti þá vísað í eftir aðstæðum.