Umsögn til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026
SFF sendu á dögunum umsögn um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026, 2. mál. Umsögn samtakanna lítur að afmörkuðum hluta frumvarpsins vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, nr. 99/1999.
SFF bentu á að þar sem í frumvarpinu er að finna nýja sérstaka gjaldtökuheimild sem snýr að hinu lögbundna eftirlitshlutverki vegna mats á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna er eðlilegt að til komi lækkun á hefðbundna eftirlitsgjaldinu á móti. Ekki er kveðið á um slíkt í frumvarpinu.
Einnig benda SFF á að eftirlitsgjaldið hefur hækkað frá ári til árs, þrátt fyrir hagræðingar og sameiningar í bankakerfinu. SFF ítreka því ábendingar þess efnis að við sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ætti einnig að hafa náðst fram hagræðing í rekstri með samþættingu þessara stofnana og því ættu að vera forsendur til þess að skoða lækkun á eftirlitsgjaldi.