Umsögn í samráðsgátt - frumvarp til laga um réttindavernd fatlaðs fólks
SFF skiluðu nýlega umsögn um frumvarp til laga um réttindavernd fatlaðs fólks. Lagabreytingum er ætlað að tryggja fötluðu fólki, sem mætt hefur kerfislægum hindrunum vegna skerðinga sem það býr við, raunverulegan aðgang að fjármálum sínum og veita nauðsynlegu stuðnings- og aðstoðarhlutverki viðeigandi lagastoð.
Samtökin fagna þeim jákvæðu markmiðum sem stefnt er að. SFF benda á að frumvarpsdrögin þarfnist þó breytinga þannig að tilætluðum markmiðum verði náð með lagasetningunni. Athugasemdir SFF lúta einkum að III. kafla frumvarpsdraganna sem er ætlað að veita stuðnings- og aðstoðarhlutverkum persónulegra talsmanna og umboðsmanna fatlaðra einstaklinga skýra lagastoð.
Að mati samtakanna þarf að skýra hlutverk umboðsmanns og persónulegs talsmanns nánar í frumvarpinu svo unnt verði að tryggja þessum nauðsynlegu stuðnings- og aðstoðarhlutverkum viðeigandi lagastoð. Óljóst er hversu ríkar heimildir ráðherra hefur til að ákvarða hlutverkið, inntak þess og hversu víðtækar heimildir fela megi umboðsmönnum og persónulegum talsmönnum með þar til gerðum löggerningum.
SFF benda á að taka þurfi til skoðunar ákvæði um brottfall samkomulags um persónulegan talsmann, en t.a.m. kemur hvergi fram hvort og hvernig skuli standa að síðari breytingum á slíku samkomulagi. Þá þykir samtökunum athugunarvert að eingöngu séu gerðar sérstakar kröfur um hæfi persónulegra talsmanna, en hvergi er fjallað um hæfi umboðsmanna í frumvarpinu.
SFF töldu mikilvægt að benda á nefnd atriði í því ljósi að tryggt verði að framkvæmd þessa verði sem best úr garði gerð.
Sjá málið í samráðsgátt hér.
Umsögnina í heild sinni má nálgast hér.