Umsögn: Stafrænar umbætur hafa dregist of lengi – Tímabært að ljúka ferlinu
SFF skrifuðu umsögn til Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna stafrænnar og rafrænnar málsmeðferðar hjá sýslumönnum og dómstólum, en samtökin hafa áður sent inn umsögn um málið í samráðsgátt.
Miðlun gagna á rafrænu eða stafrænu formi
Mikilvægt er að taka af tvímæli um að skjöl undirrituð fullgildri rafrænni undirritun teljist frumrit í lagalegum skilningi, en SFF hafa lagt til að einkaaðilum verði heimilað að birta gögn, sér í lagi greiðsluáskoranir, í stafrænu pósthólfi. Bent var á að það verði að vera hægt að leggja fram gögn á rafrænu formi án þess að efast verði um uppruna þeirra. Samtökin hafa bent á leiðir sem færar eru til framlagningar á umræddum gögnum án þess að heilleika þeirra verði stefnt í hættu.
Birting gagna í stafrænu pósthólfi
Sömu hagkvæmnissjónarmið búa að baki afhendingu gagna í gegnum stafrænt pósthólf, hvort sem sendandi er opinber- eða einkaaðili. Sérstaklega aðkallandi er að gera einkaaðilum kleift að birta greiðsluáskoranir með stafrænum hætti, t.a.m. gagnvart aðilum sem eru óstaðfestir í hús eða hafa óþekkt heimilisfang erlendis. Samtökin hafa jafnframt lagt til að birta mætti greiðsluáskoranir í Lögbirtingablaðinu við slíkar aðstæður, enda er sá birtingarmáti þegar heimill fyrir stefnur í einkamálum skv. 83. gr. laga um meðferð einkamála. Mikilvægt er að atvinnulífið, sem hefur um árabil verið leiðandi á sviði stafrænna lausna, dragist ekki aftur úr við stafvæðingu.
Rafrænar skuldaviðurkenningar – Tækifæri til frekari umbóta
Stafræn og rafræn málsmeðferð er liður í umbótaferli sem hófst með verkefninu um rafrænar þinglýsingar, en með aukinni tilfærslu málsmeðferðar yfir á rafrænt og stafrænt form er stigið skref í rétta átt. Mikið framfaraskref var þegar lögum var breytt á þann hátt að þinglýsingar gætu farið fram rafrænt en fyrsta rafræna skuldabréfinu var þinglýst árið 2021. Áætlaður þjóðhagslegur ábati þess verkefnis var á sínum tíma talinn að yrði ekki undir 1,2 til 1,7 milljörðum króna og var þá ekki allt tiltekið. Hagræði rafrænna þinglýsinga hefur þó aðeins náðst að hálfu sökum þess að enn þarf undirskrift á pappír á lánasamninga sem þarfnast þinglýsinga. Markmiðinu verður því ekki fyllilega náð fyrr en umræddar breytingar hafa náð fram að ganga. Á undanförnum misserum hafa SFF beitt sér fyrir því að stjórnvöld ljúki ferlinu sem fyrst enda er vonast til að með aukinni stafvæðingu verði unnt að ná fram aukinni skilvirkni og bæta þjónustu við almenning og fyrirtæki í landinu. Forsagan er þó mun lengi og hafa SFF allt frá árinu 2016 kallað eftir að sett verði lög um rafrænar skuldaviðurkenningar. Frumvarp þess efnis hefur ekki náð fram að ganga á fyrri þingum og er ekki að finna í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á yfirstandi þingvetri. Samtökin hafa nýverið bent á aðra lausn sem felst í því að breyta núgildandi löggjöf á þann hátt að hægt verði að klára lánaferli sem þarfnast þinglýsinga frá A-Ö rafrænt.
Í umsögn SFF eru stjórnvöld hvött til að grípa tækifærið og ljúka verkefninu um rafrænar þinglýsingar og gera rafrænar skuldaviðurkenningar að veruleika, hvort sem það er gert með umræddum lagabreytingum eða að leggja aftur fram frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar. Samtökin ítrekuðu sérstaklega sjónarmið er lúta að verulegum hagsmunum atvinnulífsins af því að innleiðing rafrænna skuldaskjala nái fram að ganga. Það hagræði sem vænst er til af rafrænni og stafrænni málsmeðferð verður ekki tryggt nema skrefið verði stigið í heild sinni og full rafræn útgáfa veðlána verði að veruleika.
Í dæmaskyni var bent á að lántakar og lánveitendur búi í dag við tvöfalt kerfi, þ.e. að undirrita þurfi skuldabréf á pappír til þess að lánveitandi geti notið lagalegs hagræðis skuldabréfa, þrátt fyrir að þinglýsingin sjálf geti farið fram með rafrænum hætti. Þannig verður fullum ávinningi ekki náð fyrr en réttarbótin verður innleidd að fullu leyti.
Sjá frekari umfjöllun og ítarlegri greiningu hvað þetta varðar í umsögn SFF um málið í samráðsgátt.
Umsögn SFF um málið í heild sinni má sjá hér.