Umsögn um frumvarp vegna breytinga á lögum um Náttúruhamfaratryggingu
SFF telur þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu mjög til bóta sérstaklega að hætt hafi verið við að stofnunin geti hafnað vátryggingum einstakra aðila enda hefði slíkt getað haft umtalsverðar neikvæðar þjóðhagslegar afleiðingar til langs tíma. Það er einnig jákvætt að það hafi verið sett gagnsærri skilyrði um það hvenær NTÍ krefjist álags hvað 16. gr. varðar sbr. þar sem vátryggingarfjárhæð er hærri en 5% af greiðsluskyldustofnunarinnar. Þessi upphæð nemur í dag 12 milljörðum króna. Í frumvarpinu er talað um að verið sé að tala um nokkra tugi aðila sem myndu greiða þetta álag en sá hópur tekur væntanlega einhverjum breytingum yfir tíma eftir því sem þessi 12 milljarða króna viðmiðunarfjárhæð tekur breytingum.
Mikilvægt að NTÍ hafi sjálft frumkvæði að því að láta aðilana vita um álagið
Það er rétt að hafa hér í huga að vegna þess að vátryggingarfyrirtækin sjálf innheimta iðgjöldin fyrir NTÍ mun óánægja þeirra aðila sem þurfa að greiða þetta áhættuálag bitna að ósekju á vátryggingarfyrirtækjunum. Til að draga úr áhrifum þessa á ímynd vátryggingarfyrirtækjanna er mikilvægt að það verði NTÍ sem hafi frumkvæði að því að láta þessa aðila vita áður en áhættuálagið verður sett á. Mikilvægt er einnig að vátryggingarfyrirtækin verði upplýst hverju sinni og með nægjanlegum fyrirvara hvaða aðilar það verði sem greiða þurfi þetta álag. Það kemur ekki fram hvort að þetta áhættuálag verði hækkað á núgildandi samninga eða taki einungis gildi þegar nýir samningar eru gerðir. Æskilegra væri fyrir vátryggingarfyrirtækin að áhættuálagið verði sett á nýja samninga sem gerðir verða eftir lagabreytinguna.
Aukinn kostnaður fellur ávátryggingarfyrirtækin í upphafi
Þá þarf að huga nánar að praktískri útfærslu á þessu ákvæði. Til dæmis kallar heimild til hækkunar á iðgjöldum einstakra viðskiptavina vafalítið á breytingar í tölvukerfum vátryggingafélaga, þannig að hægt sé að sérákvarða iðgjald til NTÍ á einstökum eignum. Mikilvægt er því að ákvarðanir um hækkun séu gerðar með þeim hætti að ráðrúm gefist til aðlögunar tölvukerfa. Reynslan sýnir að viðskiptavinir vátryggingafélaga eru oft lítið meðvitaðir um tilvist og hlutverk NTÍ og öll samskipti og óánægja viðskiptavina vegna opinberrar gjaldtöku, sem vátryggingafélögum er skylt að framkvæma skv. lögum, beinist að þeim sjálfum en ekki hinum opinberu aðilum.
Hafa þarf í huga að vátryggingarsamningar gilda að jafnaði eitt ár fram í tímann og félögin framkvæma endurnýjun þeirra með a.m.k. 6 vikna fyrirvara. Gildistaka breytinga á löggjöf sem varða vátryggingarsamninga eða innheimtu opinberra gjalda vegna þeirra þarf því að vera með þeim hætti að svigrúm sé til þess að gera ráð fyrir þeim við endurnýjun vátrygginga og aðlaga tölvukerfi.